Ýmsum spurningum enn ósvarað

Ferðamaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ferðamaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að enn eigi eftir að svara ýmsum spurningum varðandi komu ferðamanna hingað til lands, meðal annars hvort og þá hversu mikið þeir þurfa að greiða fyrir sýnatöku.  

Hann óttast að ákvörðun heilbrigðisráðherra um að samþykkja tillögu sóttvarnalæknis um breytingu á reglum um komu ferðamanna til Íslands muni draga úr vilja ferðamanna til að koma hingað.

Í tillögunni kemur fram að komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Annars þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur. Stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.

Auk upplýsinga um kostnað við sýnatöku segir Jóhannes Þór Skúlason óljóst hvað verður um þá sem hafa setið nálægt einhverjum sem mögulega greinist með veiruna, til dæmis hvort þeir þurfi að fara í sóttkví.

Aðspurður segir hann ferðamenn sem hyggja á ferðalag til Íslands spyrja mikið um kostnað við sýnatökur. Einnig spyrja þeir um hvers konar próf þetta eru og hvort einkafyrirtæki eignast upplýsingarnar sem eru gefnar. Hann segir allan aukakostnað letja fólk frá ferðalagi til Íslands. „Þetta getur skipt töluverðu máli,“ segir Jóhannes Þór.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nálgun sóttvarnarlæknis full varfærin 

Í áhættumati sóttvarnalæknis leggur hann til að skimunin við landamærin standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði með möguleika á endurskoðun á tímabilinu. Jóhannes Þór finnst nálgun sóttvarnalæknis full varfærin og bendir á að hann hafi ítrekað talað um að erlendir ferðamenn hafi ekki komið hingað með veiruna.

Fyrirfram bjóst Jóhannes við því að horft væri meira til efnahagslegra þátta við ákvarðanatökuna. Hann bendir á lönd á borð við Danmörku og Tékkland sem settu upp lista ríkja sem séu komin á svipaðan stað í sjúkdómakúrfunni og þurfi ferðamenn þaðan ekki að fara í skimun. Þetta hafi Ísland þegar gert gagnvart Grænlendingum og Færeyingum. „Það kom á óvart að það skyldi ekki horft til þess að útvíkka þann lista ríkja, líka til að koma til móts við takmarkaðan skimunarmöguleika í Keflavík,“ segir hann og nefnir einnig að önnur ríki stefni að því að opna án allrar skimunar.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í áhættumati sóttvarnalæknis segir hann að PCR-mæling hjá ferðamönnum sem koma til landsins muni lágmarka áhættuna á því að smitaður ferðamaður komist inn í landið en að hún komi ekki algerlega í veg fyrir slíkt. „Jákvæð niðurstaða prófs mun hins vegar geta leitt til frekari rannsókna, t.d. mótefnamælinga, sem munu skera úr um hvort einangrunar sé þörf. Almennt séð mun þurfa að setja sýkta ferðamenn í einangrun og útsetta í sóttkví eins og gert hefur verið við Íslendinga,“ skrifar hann og bætir við að sóttkví einstaklinga sem koma erlendis frá verði áfram ein mikilvægasta aðferðin til að hindra komu veirunnar til lands. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi vegna …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi vegna veirunnar í apríl. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn stendur fyrir aftan þau. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir segir það ekki ákjósanlegan kost fyrir Ísland að opna landamærin án takmarkana. „Þegar þetta er ritað þá er COVID-19-faraldurinn í töluverðri útbreiðslu í flestum nálægum löndum og jafnvel í vexti í mörgum þeirra. Upplýsingar um útbreiðslu veirunnar í einstaka löndum eru hins vegar af skornum skammti og því erfitt að reiða sig á raunverulega útbreiðslu. Ef Ísland yrði opnað án takmarkana tel ég næsta víst að veiran myndi berast hingað til lands annað hvort með ferðum Íslendinga erlendis eða erlendum ferðamönnum. Þetta myndi valda verulegri hættu á útbreiðslu veirunnar innanlands með miklu álagi á íslenskt heilbrigðiskerfi,“ skrifar hann.

Jóhannes Þór gerir ráð fyrir því að vera áfram í samskiptum við stjórnvöld um málið til að fá svör við hinum ýmsu spurningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert