Andlát: Sigurjón Á. Fjeldsted

Sigurjón Ágúst Fjeldsted.
Sigurjón Ágúst Fjeldsted.

Sigurjón Ágúst Fjeldsted, fv. skólastjóri, lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 30. maí sl., 78 ára að aldri.

Sigurjón fæddist í Reykjavík 12. mars árið 1942. Foreldrar hans voru Júlíus Lárusson Fjeldsted, verkamaður í Reykjavík, og Ágústa Sigríður Guðjónsdóttir húsmóðir. Sigurjón ólst upp á Grímsstaðaholtinu. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti 1958, kennaraprófi frá KÍ 1962, stundaði nám í sál- og uppeldisfræði við Kennaraháskóla Danmerkur 1965-66 og í dönsku og sálfræði 1979-80.

Sigurjón var kennari við Hlíðaskólann í Reykjavík 1962-67, skólastjóri Egilsstaðaskóla 1967-72, yfirkennari við Fellaskóla í Reykjavík 1972-74 og skólastjóri við Hólabrekkuskóla í Reykjavík 1974-2004. Hann var fréttaþulur Ríkissjónvarpsins 1974-79, varaborgarfulltrúi 1978-82 og 1986-89 og borgarfulltrúi 1982-86. Hann sat í barnaverndar- og umferðarnefnd Reykjavíkur 1978-82, sat í fræðslu- og skólamálaráði Reykjavíkur frá 1982-90, var formaður stjórnar Veitustofnana 1982-86, var formaður og varaformaður stjórnar SVR 1982-90 og fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefnd Norræna félagsins um skeið.

Sigurjón var fararstjóri á vegum Samvinnuferða-Landsýnar í Danmörku á tímabilinu 1980-90. Hann var frá unga aldri mjög virkur í félagsstarfi Oddfellow-reglunnar á Íslandi þar sem hann reis til hæstu metorða. Hann léði rödd sína við gerð sjónvarpsþátta og auglýsinga og var virkur í þjóðfélagsumræðunni. Seinni ár tók hann að sér stundakennslu í dönsku við grunnskóla borgarinnar, þ.ám. Hlíðaskóla, þar sem kennaraferill hans byrjaði og mörg af hans barnabörnum voru við nám.

Sigurjón kvæntist 20.8. 1965 Ragnheiði Óskarsdóttur, f. 1.2. 1943, kennara. Börn Sigurjóns og Ragnheiðar eru Ragnhildur Fjeldsted, f. 17.7. 1967, blómahönnuður og flugfreyja, Júlíus Fjeldsted, f. 3.7. 1974, cand.merc og fjármálastjóri AwareGO, Ásta Sigríður Fjeldsted, f. 31.1. 1982, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Hálfsystir Sigurjóns, sammæðra, var Ása Ester Skaftadóttir, f. 6.10. 1934, gift Davíð Bjarnasyni, sem bæði eru látin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert