Ferðaskrifstofan Aventura hefur í samstarfi við Primotours í Danmörku skipulagt ferðir til Íslands fyrir dönsku ferðaskrifstofuna og mun fyrirtækið hefja beint flug frá Danmörku 28. júní, nú þegar búið er að opna fyrir ferðalög milli Íslands og Danmörku. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Primotours mun bjóða ferðir með dvöl í Reykjavík sem og ferðir í kringum landið og kynnisferðir til vinsælustu ferðamannastaða landsins. Ef vel tekst upp í sumar, er von um að halda ferðum áfram fram á haustið.
Þetta er mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku til Íslands, að hefja bein flug sem fyrst, og skiptir þar gríðarlegu máli hvernig verður staðið að skimun í Keflavík við komuna til landsins. Til að gera landið sem eftirsóknarverðast sem áfangastað og að erlendir gestir sjái það sem öruggan en jafnframt aðgengilegan valkost, er höfuðatriði að skimun taki skamman tíma, og að hún sé ókeypis. Það mun tryggja það að ferðaþjónustufyrirtæki á erlendum mörkuðum muni byrja ferðir hingað fyrr en til annarra áfangastaða,“ segir enn fremur í tilkynningu frá Aventura.