Hópskimanir ekki rétta leiðin

Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir flutti erindi á málþingi í Háskóli Íslands …
Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir flutti erindi á málþingi í Háskóli Íslands um leiðina út úr kófinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bryn­dís Sig­urðardótt­ir, smit­sjúk­dóma­lækn­ir á Landspítalanum, segir að það sé rangt að taka upp hópskimanir á landamærum Íslands. Það sé dýrt og ekki þess virði.

Vitað sé að þurfi að opna landamærin en spurning um hvort það sé tímabært núna. Hún segir að það sé hennar skoðun að betra sé að sleppa skimun og opna landið á svipaðan hátt og önnur ríki eru að gera. Skynsamlegt sé að fylgjast með þróuninni til að mynda í Danmörku og á Nýja-Sjálandi.

Bryndís var með erindi á málþingi Háskóla Íslands þar sem fjallað var um kórónuveirufaraldurinn og leiðina út úr kófinu.

Hún segir að faraldurinn hafi tekið á innviði brothætts heilbrigðiskerfis og henni sé til efs að þjóðin verði jafn fórnfús og hún var þegar önnur bylgja smita kemur. Enginn efi sé um að önnur bylgja smita komi, þetta sé aðeins spurning hvenær það verði.

Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir …
Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segist velta því fyrir sér hvort sé þess virði að opna landið 15. júní. Hvort ekki sé skynsamlegra að bíða aðeins lengur. Eða jafnvel að sleppa því að skima fólk við komuna til landsins þar sem ljóst er að það munu alltaf einhver smit komast inn til landsins án þess að greinast þar sem sýnatakan nái ekki öllum smitum og alls ekki þeim sem eru með ný smit.

Að sögn Bryndísar tók kórónuveirufaraldurinn á íslensku þjóðina alla og fórnfýsi fólks mikil. Þetta tók á innviði okkar brothætta heilbrigðiskerfis og við gerðum nánast ekkert annað í þrjá mánuði. Öll önnur þjónusta var verulega skert hefur haft slæm áhrif á marga aðra en heilsa margra annarra hrakaði á þessu tímabili. Flestir sættu sig við þetta í stuttan tíma enda nauðsynlegt. Hins vegar er ekki ljóst hversu fórnfús við verðum í næstu bylgju segir Bryndís.

Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Jón Atli Benediktsson …
Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Jón Atli Benediktsson rektor, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum hjartanlega sammála um að það þarf að opna landið einhverjum tímapunkti en ekki er ljóst hvernig það ætti að gerast og hvenær. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim efnahagshörmungum sem við stöndum frammi fyrir vegna veirunnar. Margir hafa misst vinnuna og eiga um sárt að binda og því miður er vel hugsanlegt að áhrif þess á heilsu landsmanna verði mun meiri en COVID-19 nokkurn tímann. Hins vegar er hugsanlegt að það sé ekki skynsamleg forgangsröðun á fjármagni að ætla sér það verkefni að skima alla þá sem koma til landsins.“ Að skima með háls og nefkokstroki er meira en að senda sýnið segir Bryndís og bendir á allt utanum haldið við slíka sýnatöku.

„Að ógleymdu þeim grandvaralausu ferðamönnum sem voru svo óheppnir að sitja í sætaröðum nálægt þessum jákvæða. Því eiga þeir væntanlega að fara í sóttkví í boði ríkisins! Á kannski að beygja reglurnar þar eða á sama að ganga yfir alla? Óljóst er hvort ávinningur sé af þessari gífurlegri vinnu sem fer í að útfæra þetta verkefni til þess eins að finna, að því er ég tel, örfáa einstaklinga með jákvætt sýni,“ segir Bryndís.

Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Magnús Gott­freðsson, pró­fess­or …
Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. Magnús Gott­freðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóma­lækn­ing­um, er fund­ar­stjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er umhugsunarvert að enginn hafi sett spurningarmerki opinberlega við þessar hugmyndir og komið með vísindaleg rök gegn hópskimunum einkennalausra. Hugsanlega líður okkur betur að vita af ferðamönnum með neikvætt sýni og vissulega skiptir andleg heilsa þjóðarinnar máli núna en þetta er ekki rétta leiðin enda falskt öryggi, segir Bryndís.

Hún segir nokkuð ljóst að veiran mun berast aftur til landsins með Íslendingum og ferðamönnum. „Fjöldaskimun mun ekki útiloka það. Hugsanlega sé því betra að opna landið án skimana vegna þess litla ávinnings af hópskimunum á móti miklum kostnaði samfara slíkri skimun.“ 

Nýtum frekar það sem heimsfaraldurinn hefur hingað til kennt okkur. Virðing fjarlægðarmarka fyrir ákveðna hópa, handhreinsun, endalok handabandsins og almennt hreinlæti. Hlutverk þessara þátta í baráttunni gegn veirunni má ekki vanmeta, segir Bryndís.

Bryndís kom inn á möguleikann á að seinka opnun landsins og leyfa landsmönnum að njóta þess að landið er COVID-19-laust. „Hvernig væri að leyfa útilegur, útihátíðir, tónleika, fertugsafmæli, brúðkaup innan landsteinanna þar sem smithættan hér á landi er nánast engin,“ segir hún. Eða jafnvel opna í áföngum líkt og einhver lönd eru að gera. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert