Rasismi „okkar vandamál til að leysa“

(f.v.) Ester Olga, Hugrún Elfa, Nadine Hanna og Þórdís Timila …
(f.v.) Ester Olga, Hugrún Elfa, Nadine Hanna og Þórdís Timila mættu á fundinn og létu í sér heyra. mbl.is/ragnhildur

Í dag var ekki mótmælt af þörf heldur nauðsyn, að mati Jef­frey Guar­ino, eins skipu­leggj­enda sam­stöðufund­ar á Aust­ur­velli sem haldinn var vegna lögregluofbeldis í Bandaríkjunum. 

„Bræður mínir og systur eru þreytt. Þreytt á því að biðja um að þessu sé hætt,“ sagði Jeffrey.

Þeir mótmælendur sem mbl.is ræddi við á fundinum komu þangað til að sýna samstöðu. Þau tóku öll í sama streng og sögðu að þrátt fyrir að lögregluofbeldið í Bandaríkjunum fyrirfyndist ekki hérlendis væri rasismi vandamál á Íslandi.

Rasisminn á Íslandi „rosalega mikill“

Nadine Hanna og Hugrún Elfa töldu þó að Íslendingar væru að vakna til umhugsunar með aukinni umræðu í kjölfar mótmæla í Bandaríkjunum. 

„Það er enn margt sem þarf til að láta fólk skilja. Við verðum samt að gefa öllum séns og taka lítil skref. Það er það eina sem við getum gert,“ sagði Nadine. 

„Það er rosalega mikill rasismi á Íslandi sem hvítir einstaklingar hérlendis gera sér oft ekki grein fyrir og ná að láta allt snúast um sjálfa sig,“ bætti Nadine við. 

Eins og áður segir voru stelpurnar á Austurvelli til að sýna samstöðu og leggja réttindabaráttu svartra lið. 

„Líka að vekja athygli á því að þetta er okkar vandamál til að leysa,“ sagði Hugrún. 

Nadine tók undir það: „Þetta á ekki bara við svart eða hvítt fólk í Bandaríkjunum, þetta á við um alla í heiminum.“

Þorgerður Þórólfsdóttir og Óttar Þór Ólafsson ætla að gera hvað …
Þorgerður Þórólfsdóttir og Óttar Þór Ólafsson ætla að gera hvað þau geta til að sýna samstöðu. mbl.is/ragnhildur

Gott að geta lagt sitt af mörkum

Þorgerður Þórólfsdóttir sagði samstöðufundinn góðan vettvang til að sýna að málefnið væri mikilvægt.

„Vegna þess að ég hef verið óviss um það hvað ég get gert og hvernig ég get lagt mig fram til þess að styðja við þetta. Mér fannst þetta góð leið til að styðja við málefnið. Maður er búinn að vera pínu smeykur við að birta eitthvað á samfélagsmiðlum svo maður mætir hér og reynir sitt besta.“

Óttar Þór Ólafsson tók í sama streng: „Það eru hrikalegir hlutir sem eru í gangi þarna úti og það er gott að geta gert eitthvað.“

Forréttindi hvítra voru mikið rædd á fundinum og það hvernig …
Forréttindi hvítra voru mikið rædd á fundinum og það hvernig hvítt fólk gæti nýtt sér sín forréttindi til að standa upp fyrir öðrum. mbl.is/ragnhildur

Spurð hvort rasismi finnist á Íslandi sagði Þorgerður:

„Alveg 100%, hann er bara mun lúmskari en úti. Það er enn til rasískur hugsunarháttur. Til dæmis á vinnumarkaði. Maður hefur heyrt af því að fólk af erlendum uppruna sé síður boðað í atvinnuviðtöl en Íslendingar.“

Óttar sagðist alltaf ætla að sýna samstöðu með fólki af erlendum uppruna þegar hann gæti og umræðan nú væri gott tækifæri til að gera betur og hugsa um rasisma.

„Þetta er góð ástæða og góður tími til að fara að velta þessu meira fyrir sér og leggja sig meira fram.“

Þorgerður bætti því við að mikilvægt væri að leiðrétta fólk sem færi með ósannindi eða rasíska orðræðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert