Heildarkröfur Landspítala á hendur erlendum ósjúkratryggðum einstaklingum nema 282,4 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari Landspítala við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Ekki er haldið sérstaklega utan um skuldir ferðamanna sem hingað koma heldur nær upphæðin til allra erlendra aðila. Þannig ná umræddar kröfur til allra ótryggðra aðila sem þegið hafa þjónustu heilbrigðiskerfisins hér á landi.
Er fjárhæðin álíka há og í janúar á þessu ári þegar hún nam 279,5 milljónum króna. Af framangreindum fjárhæðum eru iðulega afskrifaðar kröfur upp á 25 til 30 milljónir króna árlega.
Að því er fram kemur í svari Landspítala er ekki algengt að illa tryggðir ferðamenn eða aðrir erlendir einstaklingar þiggi þjónustu á spítalanum. Reynslan undanfarin ár sýni að það sé fremur sjaldgæft. Þá hefur ekki sýnt sig að sérstaklega erfitt hafi reynst að innheimta skuldir erlendra ríkisborgara einhverra tiltekinna landa.