Kona á sextugsaldri hefur verið ákærð fyrir að hafa nýtt sér bága stöðu heilabilaðra systra á tíræðisaldri í árabil, dregið af þeim fé, tekið lausafjármuni þeirra ófrjálsri hendi, fengið systurnar til að útbúa erfðaskrá sem léti allar þeirra eigur renna til konunnar að frádreginni einni miljón króna við andlát þeirra og fleira. Eiginmaður konunnar er ákærður fyrir að hafa tekið við ávinningi af brotum konum innar, geymt hann og nýtt.
RÚV greindi fyrst frá málinu en samkvæmt ákærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, glíma báðar systurnar við heilabilun en eldri systirin hefur um árabil verið háð ákærðu vegna versnandi heilsufars og trúnaðarsambands við hana. Yngri systirin hefur dvalið á deild fyrir heilabilaða frá árinu 2006. Vegna heilabilunar sinnar hefur hún verið ófær um að taka ákvarðanir um fjármál sín um árabil og fékk ákærða umboð til að annast fjármál hennar árið 2012.
Í ákærunni kemur fram að systurnar hafi verið nánar í gegnum tíðina en þær eru báðar barnlausar og ógiftar og eiga samtals fimm íbúðir í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Systurnar áttu enga skylduerfingja og höfðu áður gert sameiginlega erfðaskrá sem kvað á um að allar eigur þeirra skyldu renna í sjóð fyrir unga listamenn.
Árið 2013 gerðu systurnar nýja erfðaskrá en þar kom fram að sú langlífari erfði hina en að þeim báðum látnum skyldu allar eignir systranna, fasteignir, innbú og lausafé renna til ákærðu að frátaldri einni milljón króna.
Samkvæmt ákærunni er aðdragandi erfðaskrárinnar sá að eldri systirin óskaði eftir því að sýslumaður útbyggi fyrir þær systur sameiginlega erfðaskrá. Samkvæmt sýslumanni vissi ákærða hvað stóð til og var sú eldri með drög erfðaskrá með sér en sýslumaðurinn ráðlagði henni að ræða við lækni yngri systurinnar og athuga hvort hún gæti heilsu sinnar vegna skrifað undir skjalið.
Í framhaldinu fóru ákærða og eldri systirin til yngri systurinnar og fóru með hana til sýslumannsins á Norðurlandi vestra þar sem erfðaskráin var staðfest og færð í gerðarbók lögbókandans á Sauðárkróki. Ákærða greiddi fyrir þjónustuna hjá sýslumanni með debetkorti yngri systurinnar.
Vegna umboðsins sem hún hafði yfir fjármálum yngri systurinnar fékk ákærða útgefin þrjú debetkort á nafni yngri systurinnar. Ákærðu er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína frá árinu 2012 til ársins 2017 og dregið sér rúmar 75 milljónir af reikningum yngri systurinnar. Tveir liðir um fjárdrátt eru í ákærunni.
Annars vegar er ákærðu gefið að sök að hafa í 2.166 tilvikum dregið samtals 23.327.502 krónur af bankareikningum yngri systurinnar og ráðstafað þannig fjármunum hennar heimildarlaust bæði í eigin þágu og fjölskyldu sinnar. Í kærunni kemur fram að ákærða hafi til að mynda notað fjármuni systurinnar til að greiða fyrir leigubílaþjónustu, fatnað í Hugo Boss, máltíð í Luxemborg og fleira.
Hins vegar er ákærðu gefið að sök að hafa dregið sér í 34 tilvikum samtals 52.047.338 krónur af bankareikningi yngri systurinnar, annars vegar með því að taka fjármuni út í reiðufé og hins vegar með gjaldeyriskaupum og ráðstafa þeim svo heimildarlaust í eigin þágu og fjölskyldu sinnar.
Þá er ákærðu gefið að sök að hafa látið eldri systurina greiða fyrir Visa-reikninga sína, alls tæpar fjórar milljónir.
Ákærðu er einnig gefið að sök að hafa látið greipar sópa í fimm íbúðum í eigu systranna og farið með lausafjármuni sem hún fann þar á heimili sitt frá árinu 2012 til ársins 2017. Munirnir voru haldlagðir á heimili ákærðu við húsleit árið 2017 en um er að ræða silfurborðbúnað að verðmæti tæpri einni milljón króna, málverk, pels og margt fleira.
Ákæruvaldið krefst þess að hjónin verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og gerir meðal annars kröfu um að húseign hjónanna, Audi Q7-jeppi og listmunir eftir Ásmund Sveinsson, Jóhannes Kjarval og Einar Jónsson verði dæmdir upptækir.
Þá krefjast skipaðir lögráðamenn systranna skaðabóta fyrir þeirra hönd.
Í ákærunni eru tengsl hjónanna og systranna reifuð en vinskapur ákærðu og eldri systurinnar hófst í gegnum félagsstarf á vegum bandaríska sendiráðsins hér á landi en eldri systirin starfaði þar um árabil. Vinátta þeirra hófst ekki síðar en árið 2005. Kynni yngri systurinnar af ákærðu voru einungis í gegnum eldri systur hennar. Sú yngri bjó lengst af í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði í Alþjóðabankanum.
Í ákærunni kemur fram að hjónin hafi glímt við mikla fjárhagserfiðleika eftir bankahrunið og skuldir þeirra hækkað um 95 milljónir króna árið 2011. Konan hóf umrædd brot þegar hún hafði verið atvinnulaus í rúm tvö ár. Hjónin neita því að hafa nýtt fjármuni systranna til að greiða upp skuldir. Konan hefur þó sagt að hún hafi nýtt fjármuni systranna til að reka heimili þeirra hjóna.
Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.