Ferðaskrifstofan Tripical sendi útskriftarnemum Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) fyrr í kvöld póst um að útskriftarferð þeirra til Krítar yrði farin en hún er fyrirhuguð 14. júní næstkomandi. Grikkland, og þar með Krít, ætlar ekki að opna landamæri sín fyrr en 15. júní og segir jafnframt í pósti frá Tripical til útskriftarnemanna að enn sé óljóst hvort hægt sé að fljúga beint til Krítar á tímabilinu 15. júní til 30. júní, það sé þó líklegt og ef það verði ekki hægt verði farin 60 mínútna bátsferð frá Aþenu. Endanlegur brottfarartími hefur ekki verið ákveðinn.
Móðir eins útskriftarnemanna sem hafði samband við mbl.is segir að foreldrar muni leita lögfræðiaðstoðar ef börn þeirra fái ekki endurgreitt.
Útskriftarnemunum er ekki boðinn möguleiki fullrar endurgreiðslu. Útskriftarnemarnir geta valið um að fá inneign hjá Tripical, fara frekar seinna í ferðina, eða fara til Hellu í staðinn.
Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að Tripical ætli sér til Ítalíu með útskriftarnema frá Menntaskólanum á Akureyri og hafi gefið þeim sólarhring til að ákveða sig.