Leita að húsnæði fyrir Skattinn

Höfuðstöðvar Skattsins eru á Laugavegi 166.
Höfuðstöðvar Skattsins eru á Laugavegi 166. Morgunblaðið/SISI

Ríkiskaup hafa fyrir hönd ríkissjóðs auglýst eftir leiguhúsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýjar höfuðstöðvar Skattsins og skattrannsóknarstjóra. Umsjónaraðili er Framkvæmdasýsla ríkisins. Húsnæðisþörfin er áætluð um 9.800 fermetrar. Æskilegt er talið að húsnæðið sé ekki meira en 6 hæðir.

Ný ríkisstofnun, Skatturinn, tók til starfa um síðustu áramót. Þá sameinuðust embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra. Snorri Olsen ríkisskattstjóri stýrir stofnuninni.

Afgreiðslur embættisins eru fyrst um sinn óbreyttar á Tryggvagötu 19 (Tollhúsinu) og Laugavegi 166. Nú stendur til að sameina starfsemina undir sama þaki ásamt embætti skattrannsóknarstjóra, sem nú er til húsa í Borgartúni 7.

Þegar Skatturinn flytur í nýtt húsnæði losnar húsnæði á góðum stað í borginni til annarra nota. Annars vegar á Laugavegi 166, sem er fimm hæða bygging, og hins vegar í Tollhúsinu, sem er sex hæða bygging. Tollurinn hefur verið með hluta hússins til afnota.

Fram kemur í auglýsingu Ríkiskaupa að miðað sé við að húsnæðið verði tekið á langtímaleigu til 30 ára, fullbúið til notkunar með föstum innréttingum og búnaði, án lauss búnaðar. Gerð er krafa um sérhúsnæði á góðum stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, gott aðgengi, þ.m.t. fyrir hreyfihamlaða, hjólandi og gangandi og næg bílastæði bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Einnig er gerð krafa um að húsnæðið liggi vel við almenningssamgöngum, m.a. fyrirhugaða borgarlínu. Skilyrði er að húsnæðið verði tilbúið til notkunar eigi síðar en 18 mánuðum eftir undirritun leigusamnings.

Leigutilboðum skal skila eigi síðar en fimmtudaginn 30. júlí 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert