„Mér fannst þetta fáránleg hugmynd“

Urður Njarðvík, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands fjallaði um …
Urður Njarðvík, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands fjallaði um áhrif samkomubannsins á börn með ADHD. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu segir að honum hafi þótt það fáránleg hugmynd í byrjun að gera efnahagslega greiningu á lokun landamæra og prófessor í sálfræði segir að vandi barna með ADHD hafi aukist mikið í samkomubanninu. Fjallað var um kórónuveirufaraldurinn á málþingi í gær.

Urður Njarðvík, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, segir að samkomubannið hafi verið mjög erfitt fyrir  marga. Tilfinningavandi barna með ADHD jókst mjög mikið og eins þunglyndi meðal foreldra barna með ADHD.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Urðar: „Með storminn í fangið: Áhrif samkomubanns á líðan barna með ADHD og foreldra þeirra,“ sem hún flutti á málþingi í Háskóla Íslands í gær, „Út úr kófinu – heilsa, efnahagur og stjórnmál“.

Urður gerði aðstæður barnafólks að umtalsefni og þær breyttu aðstæður sem fylgdu skertu skólastarfi. Svo sem aukið heimanám á sama tíma og skipulagt frístundastarf lagðist af. Sem ekki er gott því rannsóknir sýna það að skipulögð tómstundastarfsemi er verndandi þáttur fyrir börn, sérstaklega hvað varðar geðheilsu, sjálfstraust og andlega líðan þeirra. Minni samskipti við jafnaldra er heldur ekki gott fyrir börn segir Urður. 

Foreldrarnir þurftu margir að vinna heima, kannski á fjarfundum inni í eldhúsi eða hvar sem er og þetta er streituvaldandi segir Urður. Hún segir mikilvægt að segja sem er og að þessar raddir fái að heyrast — þetta ástand er streituvaldandi og það eru fleiri í sömu stöðu en þú. Margir hafi komið tættir og illa út úr samkomubanninu.

Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu.
Háskóli Íslands - málþingið Út úr kófinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Urður er að vinna rannsókn á börnum með ADHD. Röskunin er algengasta tilvísunarástæða í geðheilbrigðisþjónustu við börn enda er þetta fjölmennur hópur eða 5-7% barna sem svarar til þess að um það bil 1 barn í 20 manna bekk er með ADHD.

Að eiga barn með ADHD eykur líkur á streitu- og álagseinkennum hjá foreldrum, hjónabandserfiðleikum, kvíðaröskunum og þunglyndi auk þess sem það er sterkur erfðaþáttur við ADHD og foreldrarnir eru oft einnig með ADHD sagði Urður í erindi sínu í gær.

Alls taka 39 börn með ADHD þátt í rannsókninni og eru þau á aldrinum 6-12 ára. Kynjahlutföll voru svipuð, 80% þeirra eru í lyfjameðferð og 71,8% frá heimilum þar sem eru fleiri börn. 

Fyrri mælingin var gerð í byrjun febrúar eða áður en fyrsta smit COVID-19 var greint hér á landi. Seinni mæling var í apríl þegar smitkúrfan var í hámarki hér á landi. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Urðar varð ekki mikil breyting á svefni barnanna í samkomubanninu en þau glíma við mikinn svefnvanda í báðum mælingum. Tilfinningavandi barna jókst aftur á móti mjög mikið og er alvarlega mikill í seinni mælingunni þegar hann mældist tæp 60% og fór úr því vera tæplega 40%.

Eins jókst kvíði, depurð, þunglyndi og streita foreldra og þunglyndið það mikið að það var orðið mjög alvarlegt hjá foreldrum í seinni mælingunni. 

„Ég held að þessar niðurstöður séu að einhverju leyti að endurspegla það sem þjóðin var að upplifa á þessum tíma,“ segir Urður og bætir við að kannski sé mælingin sterkari hjá þessum foreldrum þar sem þeir eru oft að mælast með meiri streitu fyrir. 

Sigurður Guðmundsson, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Sigurður Guðmundsson, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í hnotskurn eru niðurstöður þær að hegðunarvandi stóð í stað en tilfinningavandi barna jókst marktækt og líðan foreldra versnaði einnig, einkum jókst þunglyndi þeirra sem er mjög alvarlegt að sögn Unnar. 

Samkomubannið hafði marktæk neikvæð áhrif á líðan barna með ADHD og einnig foreldra þeirra. Þetta á örugglega einnig við börn með einhverfu og börn með þroskahamlanir segir Urður og bætir við að það eigi væntanlega við um öll börn sem eru viðkvæm fyrir því að skólinn er tekinn frá þeim. 

Líklegt að börnum á biðlistum hafi einnig hrakað talsvert á þessum tíma en biðlistarnir eftir greiningu eru 1-1,5 ár. 

Hún segir að það sé mikilvægt að ef einhvern tíma þarf að fara í takmarkanir sem þessar sem voru á tímum samkomubannsins verði litið til baka og lært af þessum tíma. Þurfum að hugsa fyrir því hvernig við getum tryggt meiri og betri þjónustu fyrir þennan hóp segir Urður og að hennar sögn er gríðarlega mikilvægt að styðja við stofnanir sem takast á við að veita þjónustu við börn með sér þarfir.

Tóm­as Brynj­ólfs­son, hag­fræðing­ur og skrif­stofu­stjóri í fjár­málaráðuneyt­inu.
Tóm­as Brynj­ólfs­son, hag­fræðing­ur og skrif­stofu­stjóri í fjár­málaráðuneyt­inu. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Hag­stjórn í tak­mörkuðu skyggni“

Tóm­as Brynj­ólfs­son, hag­fræðing­ur og skrif­stofu­stjóri í fjár­málaráðuneyt­inu, segir að hann hafi verið spurður að því í byrjun febrúar hvort hann gæti gert efnahagslega greiningu á því að loka landamærunum. „Mér fannst þetta fáránleg hugmynd,“ segir Tómas en erindi hans á málþinginu nefndist „Hag­stjórn í tak­mörkuðu skyggni“.

Tómas segir að honum hafi fundist á þeim tíma að tíma hans væri betur varið í eitthvað annað en eitt af því sem tekist var á um á málþinginu var hvernig standa eigi að opnun landamæra Íslands.

Samkvæmt hagrænu mati sem unnið var að beiðni forsætisráðherra og kynnt var í ríkisstjórn yrðu efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum. Takmarkaður ferðavilji í heiminum skapi aðstæður til að stíga varfærin skref í átt til opnunar.

Þá hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis, sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar, um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands. Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur.

Sóttvarnalæknir mun bera meginábyrgð á framkvæmd sýnatöku og greiningu sýna í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Íslenska erfðagreiningu. Lögregluyfirvöld taka virkan þátt í verkefninu vegna þess að sýnatakan fer fram á landamærum og vegna almannavarnaaðgerða, t.d. við smitrakningu. Þá hefur forsætisráðherra ákveðið að skipa samhæfingarteymi þvert á ráðuneyti og stofnanir sem aðstoðar við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá rýmkun reglna um komu ferðamanna til landsins yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag en stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.

Að sögn Tómasar hafði hann ekki hugmyndarflug til þess að ímynda sér það að Evrópa myndi loka og einnig Bandaríkin. Hvað þá hversu hratt þetta myndi gerast. 

Á þessum tíma töldu allir að þetta yrði skammvinnt vandamál og jafnvel yrði það bundið við norðurhluta Ítalíu og Kína. Áhrifin yrðu smávægileg hér og einhverjir erfiðleikar yrðu með innflutning á ákveðnum vörum. Efnahagslegt álag yrði það lítið að ekki þyrfti að hafa af því neinar sérstakar áhyggjur segir Tómas.

Jón Atli Bene­dikts­son rektor, Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, og Svandís …
Jón Atli Bene­dikts­son rektor, Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, og Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Tómasar er með aðgerðum ríkissjóðs verið að koma heimilum til aðstoðar og það sem eftir standi er að ríkissjóður skuldar meira sem er í sjálfu sér í lagi þar sem staða ríkissjóðs var góð fyrir faraldurinn. Þetta byggir á því að um skammvinnt ástand sé að ræða ítrekar hann. Aftur á móti er annað uppi á teningnum ef um langvinnt ástand er að ræða. Þá breytist hugsunin algjörlega og erfitt að spá fyrir um framhaldið.

Bjartsýnar efnahagsspár leiði til mistaka og miklu meiri efnahagslegur kostnaður er í því að gera of lítið en aðeins of mikið segir Tómas. Ef við gerum of lítið verður ástandið langvarandi að hans sögn.

Í erindi sínu á málþinginu minntist Tómas á algenga söguskýringu um að evrópskir ríkissjóðir hafi dregið of hratt úr viðspyrnunni í kjölfar fjármálakreppunnar álfunni. Vegna þess að 2010 komu hagspár sem voru nokkuð bjartar um framhaldið. Það gerði það að verkum að fólk hélt að það væri allt að snúast við og drógu úr stuðningnum. Það er ein af ástæðunum fyrir því að hagvöxtur var minni á evru-svæðinu heldur en í Bandaríkjunum segir hann. 

Tómas segir að við eigum að opna landið en til þess verði að taka fara vanfærin skref. Ef beðið er of lengi þá missi Ísland af lestinni. Hann segir að ekki sé gert ráð fyrir hraðri fjölgun ferðamanna á næsta ári en jákvætt sé að sjá að innlend eftirspurn hafi tekið miklu hraðar við sér en búist var við. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Engan óraði fyrir því sem var í vændum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að engan hafi órað fyrir því að svo stuttu eftir að heilbrigðisstefna fyrir Ísland til ársins var samþykkt á Alþingi stæðum við frammi fyrir heimsfaraldri sem fór eins og eldur í sinu um heiminn og hefur lagt efnahagslíf einhverra ríkja í rúst. Ekkert sé fjallað um heimsfaraldur í heilbrigðisstefnunni heldur var þar mörkuð leiðin að því hvernig við viljum sjá heilbrigðisþjónustuna þróast til ársins 2030.

Með öðrum orðum að gera heilbrigðiskerfið þannig úr garði að það sé fært um að mæta áskorunum segir Svandís en hún var síðasti ræðumaður málþingsins í Háskóla Íslands í gær. 

Hún segir að hér hafi verið farið í öflugar aðgerðir til að stemma stigu við faraldrinum og allir hafi lagt sitt af mörkum. Einkum og sér í lagi þeir sem voru í framvarðarsveitinni en of langt mál væri að telja alla þá sem þar áttu hlut að máli og þakka hverjum og einum. 

Svandís segir að mikið sé nú rætt um að bera saman árangur milli landa en það þurfi að fara varlega í slíkan samanburð. Því lönd eru ólíkt samansett, svo sem eru 30% fleiri eldri borgarar á Ítalíu en í Noregi. Máli skipti hvort lönd séu þéttbýl eða strábýl og eins efnahagur þeirra og félagsleg vandamál. 

Á öllum þessum sviðum tilheyrum við Íslendingar þeim þáttum með tiltölulega fáa áhættuþætti segir Svandís og eins skipti máli að Ísland er eyja með takmarkaðar samgöngur eins og staðan er núna. Samanburður milli landa ekki heppilegur á þessu stigi segir hún. „Við vitum hvað er best fyrir okkur og eigum að halda áfram að hugsa það þannig,“ segir hún. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís segir að við þurfum að notfæra okkur þann lærdóm sem við höfum af þessu tímabili. Svo sem varðandi skóla og heimsóknarbann á hjúkrunarheimilum.

Ekki er hægt að loka landinu til eilífar og við fórum varfærna leið þar sem sóttvarnir og vernduðum áhættuhópa segir hún.

Svandís segir að ekki sé búið að meta áhrifin af þeim aðgerðum sem gripið var til hér á landi. Við sem samfélag verðum að horfast í augu við og skoða, þegar þessi tími er að baki, varðandi áhrifin á aðra sjúkdóma. Eins og til dæmis geðheilsu. Kannski er það næsta og mikilvægasta áskorunin að skoða áhrifin á lýðheilsu og geðheilbrigði að sögn heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert