Skiptir ekki máli hversu vel þú talar íslensku

„Þegar þú elst upp við svona aðstæður þá hætt­irðu oft …
„Þegar þú elst upp við svona aðstæður þá hætt­irðu oft að vilja tengja þig við þinn upp­runa, svo fólk verður kannski svo­lítið týnt í eig­in sjálfs­mynd. Það er hvorki Íslend­ing­ur né hitt, aldrei nógu mikið annað hvort“ Ljósmynd/Aðsend

Oft er al­veg sama hversu vel Íslend­ing­ar af er­lend­um upp­runa tala ís­lensku. Útlits þeirra vegna, eða vegna erlendra nafna, virðast marg­ir aldrei líta á þá sem Íslend­inga.

Þetta segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sem skilaði ný­verið meistara­rit­gerð í hnatt­ræn­um fræðum við Há­skóla Íslands und­ir heit­inu „Hvenær er maður eiginlega orðinn Íslendingur?“. Ritgerðin fjallar um fordóma sem íslenskar konur sem eiga ættir að rekja til Mið-Austurlanda mæta á Íslandi.

„Þetta er rosa­lega per­sónu­legt efni og kveikj­an að þessu var al­gjör­lega mín reynsla,“ seg­ir Miriam í sam­tali við mbl.is, en í rannsókninni tók hún viðtöl til að kanna reynslu þessara kvenna af fordómum hér á landi.

Samstöðufundur með mótmælendum í Bandaríkjunum var haldinn í gær. Fjölmargir …
Samstöðufundur með mótmælendum í Bandaríkjunum var haldinn í gær. Fjölmargir hafa stigið fram að undanförnu og lýst reynslu sinni af kynþáttafordómum á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Svara íslensku með ensku

„Eitt sem ég get dregið út úr þessu er að það skipt­ir í raun ekki máli hversu vel þú tal­ar ís­lensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslend­ing­ur. Birtingarmyndir fordóma eru misjafnar en útilokun og neikvæðar athugasemdir eru hluti þeirra,“ segir Miriam.

„Eitt af því sem ýtir undir tilfinningar um útilokun er til dæmis þegar fólk er í sífellu ávarpað á ensku jafnvel þó það svari á íslensku eða hafi jafnvel byrjað samtalið á íslensku. Marg­ar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk tal­ar ensku við mig að fyrra bragði.

Það er samt alltaf verið að segja að út­lend­ing­ar þurfi bara að læra ís­lensku og að við verðum að vera opn­ari fyr­ir því að fólk tali ís­lensku með hreim, sem er al­veg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lít­ur út á ein­hvern hátt þá lít­ur fólk á þig sem út­lend­ing.“

Í rit­gerðinni fjall­ar Miriam eins og áður sagði um reynslu kvennanna af fordómum í sinn garð, sem leggjast ofan á þá al­mennu for­dóma sem fólk af er­lend­um upp­runa mæt­ir á Íslandi.

Fordómarnir byggi mikið á fáfræði og neikvæðum staðalímyndum sem hafi orðið normalíseraðir í allri umræðu á landinu. Fyr­ir mörg­um séu flótta­menn, hæl­is­leit­end­ur og múslimar orðnir að ein­hvers kon­ar sam­nefn­ara sem fólk geri eng­an grein­ar­mun á og nei­kvæð umræða í garð þess­ara hópa grasseri á mörgum sviðum samfélagsins. Slíkt geti valdið og viðhaldið útilokun fólks sem tilheyrir, eða er talið tilheyra þessum hópum, frá fullri þátttöku í samfélaginu. 

Týnist í eigin sjálfsmynd

„Þegar þú elst upp við svona aðstæður þá hætt­irðu oft að vilja tengja þig við þinn upp­runa, svo fólk verður kannski svo­lítið týnt í eig­in sjálfs­mynd. Það er hvorki Íslend­ing­ur né hitt, aldrei nógu mikið annað hvort,“ segir Miriam, en það kom henni á óvart hversu marg­ir Íslend­ing­ar eigi ræt­ur að rekja til annarra landa.

„20% þjóðar­inn­ar eru inn­flytj­end­ur, önn­ur kyn­slóð inn­flytj­enda eða fólk með eitt er­lent for­eldri. 73 þúsund manns eiga ætt­ir að rekja til annarra landa og þessi fjöl­breyti­leiki fer al­veg fram­hjá manni.“

Miriam seg­ir mik­il­vægt að gera þenn­an fjöl­breyti­leika Íslend­inga sýni­legri, auk þess sem taka þurfi harðar á þeirri umræðu sem viðgengst um fólk af er­lend­um upp­runa á Íslandi.

„Það þarf að verða ein­hver viðhorfs­breyt­ing. Ef þú sérð aldrei þenn­an fjöl­breyti­leika, þá virðist kannski allt sem er öðru­vísi svo­lítið ógn­væn­legt. Ég hvet alla til þess að hlusta á meðborgara sína sem hafa upplifað fordóma, taka mark á frásögnum þeirra og ekki gera lítið úr reynslu þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert