Oft er alveg sama hversu vel Íslendingar af erlendum uppruna tala íslensku. Útlits þeirra vegna, eða vegna erlendra nafna, virðast margir aldrei líta á þá sem Íslendinga.
Þetta segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sem skilaði nýverið meistararitgerð í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands undir heitinu „Hvenær er maður eiginlega orðinn Íslendingur?“. Ritgerðin fjallar um fordóma sem íslenskar konur sem eiga ættir að rekja til Mið-Austurlanda mæta á Íslandi.
„Þetta er rosalega persónulegt efni og kveikjan að þessu var algjörlega mín reynsla,“ segir Miriam í samtali við mbl.is, en í rannsókninni tók hún viðtöl til að kanna reynslu þessara kvenna af fordómum hér á landi.
„Eitt sem ég get dregið út úr þessu er að það skiptir í raun ekki máli hversu vel þú talar íslensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslendingur. Birtingarmyndir fordóma eru misjafnar en útilokun og neikvæðar athugasemdir eru hluti þeirra,“ segir Miriam.
„Eitt af því sem ýtir undir tilfinningar um útilokun er til dæmis þegar fólk er í sífellu ávarpað á ensku jafnvel þó það svari á íslensku eða hafi jafnvel byrjað samtalið á íslensku. Margar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk talar ensku við mig að fyrra bragði.
Það er samt alltaf verið að segja að útlendingar þurfi bara að læra íslensku og að við verðum að vera opnari fyrir því að fólk tali íslensku með hreim, sem er alveg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lítur út á einhvern hátt þá lítur fólk á þig sem útlending.“
Í ritgerðinni fjallar Miriam eins og áður sagði um reynslu kvennanna af fordómum í sinn garð, sem leggjast ofan á þá almennu fordóma sem fólk af erlendum uppruna mætir á Íslandi.
Fordómarnir byggi mikið á fáfræði og neikvæðum staðalímyndum sem hafi orðið normalíseraðir í allri umræðu á landinu. Fyrir mörgum séu flóttamenn, hælisleitendur og múslimar orðnir að einhvers konar samnefnara sem fólk geri engan greinarmun á og neikvæð umræða í garð þessara hópa grasseri á mörgum sviðum samfélagsins. Slíkt geti valdið og viðhaldið útilokun fólks sem tilheyrir, eða er talið tilheyra þessum hópum, frá fullri þátttöku í samfélaginu.
„Þegar þú elst upp við svona aðstæður þá hættirðu oft að vilja tengja þig við þinn uppruna, svo fólk verður kannski svolítið týnt í eigin sjálfsmynd. Það er hvorki Íslendingur né hitt, aldrei nógu mikið annað hvort,“ segir Miriam, en það kom henni á óvart hversu margir Íslendingar eigi rætur að rekja til annarra landa.
„20% þjóðarinnar eru innflytjendur, önnur kynslóð innflytjenda eða fólk með eitt erlent foreldri. 73 þúsund manns eiga ættir að rekja til annarra landa og þessi fjölbreytileiki fer alveg framhjá manni.“
Miriam segir mikilvægt að gera þennan fjölbreytileika Íslendinga sýnilegri, auk þess sem taka þurfi harðar á þeirri umræðu sem viðgengst um fólk af erlendum uppruna á Íslandi.
„Það þarf að verða einhver viðhorfsbreyting. Ef þú sérð aldrei þennan fjölbreytileika, þá virðist kannski allt sem er öðruvísi svolítið ógnvænlegt. Ég hvet alla til þess að hlusta á meðborgara sína sem hafa upplifað fordóma, taka mark á frásögnum þeirra og ekki gera lítið úr reynslu þeirra.“