Tekjur ÁTVR á síðasta ári námu tæpum 37 milljörðum króna. Jukust þær um tæpa 1,7 milljarða króna. Jafngildir það ríflega 4,7% vexti milli ára. Kemur vöxturinn helst fram í áfengissölu en hún jókst um 5,9% milli ára, nam 27,3 milljörðum samanborið við 25,8 milljarða árið 2018.
Selt magn af áfengi í lítrum talið jókst hins vegar um 3,09%. Sala tóbaks nam 9,6 milljörðum og jókst úr ríflega 9,4 milljörðum árið áður. Jafngildir það 1,6% vexti milli ára. Sala vindlinga í magni minnkaði um 1,5% milli ára. Selt magn neftóbaks jókst um 3,1%. Sala umbúða jókst um 6,6 milljónir og nam 99,8 milljónum króna.
Samkvæmt skýringum í ársreikningi ÁTVR nam vörunotkun áfengis 23,3 milljörðum og því var álagning af þeim hluta sölunnar 3,9 milljarðar króna. Vörunotkun tóbaks nam 7,9 milljörðum og því nam álagning af þeim hluta starfseminnar tæpum 1,7 milljörðum króna.
Í Morgunblaðinu í dag segir að ÁTVR hefur ekki viljað gefa sundurliðun á öðrum rekstrargjöldum starfseminnar, þ.e. hversu stór hluti launa, sölu- og dreifingarkostnaðar eða annars stjórnunar- og skrifstofukostnaðar fellur til vegna áfengissölunnar annars vegar og tóbakssölunnar hins vegar. Það veldur því að ekki er hægt að greina með nákvæmum hætti hver afkoma er af hvorum hluta starfseminnar fyrir sig.