„Af verkfalli má ekki verða“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir niðurstöðu atkvæðagreiðslu hjúkrunarfræðinga um að fara í verkfall 22. júní vera sérstakt áhyggjuefni.

Hann segir fátt vera eins slæmt í rekstri sjúkrahúsa eða heilbrigðisþjónustu og verkföll, sér í lagi hjá lykilstéttum eins og hjúkrunarfræðingum. „Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki í starfi spítalans og án þeirra rekum við ekki sjúkrahús. Ábyrgð samningsaðila er gríðarleg. Af verkfalli má ekki verða, svo einfalt er það. Áður en það brestur á verða samningsaðilar að ná saman og ég hvet þá eindregið til að ljúka samningum í tíma,“ skrifar Páll í vikulegum forstjórapistli sínum.

Þar segir hann jafnframt að fjármagn til vísindastarfs, sem sé ein af grunnstoðum starfsins á Landspítala, vera alltof lítið. Það sé óskynsamlegt.

„Fátt er mikilvægara framtíð heilbrigðisþjónustu á landinu en að efla nýsköpunar- og vísindastarf á heilbrigðissviði og hvílíkt vor það yrði í vísindum ef myndarlega yrði tekið á þessum málum, nú í kjölfar kófsins,“ skrifar hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka