Andlát: Kristján Hólm Óskarsson skipstjóri

Kristján Hólm Óskarsson.
Kristján Hólm Óskarsson.

Kristján Hólm Óskarsson skipstjóri lést í Hamborg í Þýskalandi 6. maí síðastliðinn, níræður að aldri.

Kristján fæddist á Siglufirði 28. júní 1929, sonur Óskars Sveinssonar, sjómanns og verkamanns, og fyrri konu hans, Guðlaugar Sveinsdóttur húsfreyju. Þau eignuðust fjóra syni; Helga, f. 1925, d. 2012, Svein, f. 1926, d. 1927, og tvíburana Sigurjón Hólm, f. 1929, d. 2009, og Kristján Hólm. Guðlaug lést árið 1933, 29 ára gömul, og seinni kona Óskars var Elín Jónsdóttir. Eignuðust þau þrjú börn; Hauk, f. 1941, Guðlaugu, f. 1942, og Guðfinnu, f. 1946, d. 2009. Áður en Óskar kvæntist Elínu eignaðist hann tvö börn; Guðlaug, f. 1935, og Guðmundu Sigríði, f. 1938, d. 2003.

Kristján ólst upp á Siglufirði fyrstu árin en þegar hann missti móður sína, þá aðeins fjögurra ára, voru bræðurnir sendir í sveit. Eftir vist á nokkrum stöðum lauk Kristján skyldunámi á Grund í Svarfaðardal og á Siglufirði. Aðeins 17 ára að aldri laumaði hann sér um borð í kolaskip, sem lá við bryggju á Siglufirði, og sigldi með því til Ameríku. Átti hann farsælan og ævintýralegan feril í siglingum um heimsins höf á stærðarinnar frakt- og farþegaskipum. Kristján fékk stýrimanns- og skipstjórnarréttindi í Noregi en frá árinu 1967 bjó hann í Hamborg í Þýskalandi. Sigldi hann fyrir skipafélög frá m.a. Noregi, Bandaríkjunum, Kína og Japan, auk þess að sigla fyrir Íransskeisara og Gaddafí Líbíuforseta. Hann kom nokkrum sinnum til Íslands og leit alltaf á sig sem Íslending og ekki síður Siglfirðing. Sjálfsævisaga Kristjáns, Captain Oskarsson, kom út hér á landi árið 2006, Svava Jónsdóttir skráði.

Eftirlifandi eiginkona Kristjáns er Heidi Huls, búsett í Hamborg, og eignuðust þau tvö börn; Kristján Leif og Alice Sólveigu, sem einnig búa í Hamborg. Áður átti hann norska konu, Thurid Sverdrup, en leiðir þeirra skildi 1959. Eignuðust þau tvær dætur; Erlu og Fríðu Guðlaugu, sem búa í Noregi.

Kristján verður jarðsettur á Siglufirði þegar ferðatakmörkunum milli landa hefur verið aflétt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert