„Ekkert sérstakt eftirlit með þessu“

AFP

Lögráðamaður annarrar systranna sem voru féflettar af konu á sextugsaldri segir ekkert eftirlit vera með því hvernig lögráða einstaklingar ráðstafi eignum sínum. Málið sé óheppilegt, en erfitt er að sporna við samskonar tilfellum. 

Sigurður Jónsson, lögmaður, var skipaður lögráðamaður yngri systurinnar fyrir þremur árum, en bæði hún og eldri systirin eru heilabilaðar.  

„Mig minnir að það hafi verið sumarið 2017 sem systurnar hafi verið sviptar lögræði og við skipuð lögráðamenn,“ segir Sigurður og bætir við að málið sé eðlilega viðkvæmt og persónulegt. Hjördís Edda Harðardóttir er lögráðamaður eldri systurinnar. 

„Þegar að við Hjördís Edda erum skipuð lögráðamenn förum við að kanna eignastöðu skjólstæðinga okkar og þá kemur þetta upp, við sjáum óeðlilega háar millifærslur, óeðlilegt fjárstreymi til einstaklings sem hafði haft einhverskonar umsjón með þeim. Við rannsökum málið og komumst að því að það gæti ekki staðist að þessi einstaklingur ætti að fá þessa pening. Við kærðum þetta síðsumars 2017 til saksóknara og embættið hefur haft þetta til rannsóknar síðan,“ segir Sigurður. 

Sigurður Jónsson, lögráðamaður yngri systurinnar.
Sigurður Jónsson, lögráðamaður yngri systurinnar. Ljósmynd/Land lögmenn

Ákærða hafði umboð yfir fjármálum yngri systurinnar frá árinu 2012 og er í ákæru gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína frá árinu 2012 til 2017 og dregið sér rúmlega 75 milljónir af reikningum yngri systurinnar, tekið lausafjármuni þeirra beggja ófrjálsri hendi, fengið systurnar til að útbúa erfðaskrá sem léti allar þeirra eigur renna til konunnar að frádreginni einni milljón króna og fleira. 

Sigurður segir ekkert eftirlit hafa staðið því í vegi að meintur fjárdráttur hafi átt sér stað. Systurnar hafi verið fjárráða þegar ákærðu var veitt umboð yfir fjármálum yngri systurinnar og sú eldri hafi verið háð ákærðu um árabil vegna versnandi heilsufars og trúnaðarsambands við hana. 

„Það er eðlilega ekkert sérstakt eftirlit með þessu. Þær eru fjárráða á þessum tíma sem eru auðvitað mikilvæg mannréttindi, og þá mátt þú ráðstafa eignum þínum eins og þú vilt. Ef mér dytti það í hug gæti ég gefið einhverjum allt sem ég á, það er mjög mikilvægur réttur. Ein ástæðan fyrir því að við töldum að um gæti verið að ræða refsivert athæfi var að á þeim tíma sem þetta á sér stað voru þessir einstaklingar gjörsamlega ófærir um að hafa nokkuð ráð á sínum fjármálum,“ segir Sigurður. 

„Þetta getur auðvitað gerst því það er ekkert sérstakt eftirlit með því hvort þú sem fjárráða einstaklingur sért að ráðstafa eignum þínum af einhverju viti. Þetta er eitthvað sem fólk ræður yfir sjálft og samfélagið gengur langt í að vernda eignarétt einstaklingsins. Það er auðvitað ákveðið eftirlitskerfi en það er líka verið að passa það að yfirvöld geti ekki verið með nefið ofan í öllu sem þú gerir. Þarna togast á ákveðin réttindi,“ segir Sigurður. 

Hann segir málið óréttlætanlegt, en að á sama tíma sé hann ekki þeirrar skoðunar að yfirvöld eigi að geta fylgst með því hvernig einstaklingar ráðstafi eignum sínum. Það séu mikilvæg stjórnarskrárvarin réttindi.

„Vissulega er það slæmt að þetta geti viðgengist svona. En það gengur auðvitað ekki að það sé verið að skipta sér af öllu, fólk má ráðstafa eignum sínum eins og það vill. En ástæðan fyrir því að við lögðum fram þessa kæru var sú að við töldum að þetta væri óeðlilegt. Ákæruvaldið telur greinilega líka að þetta hafi verið óeðlilegt og að þarna hafi verið um refsiverða háttsemi að ræða en þetta mál verður bara að hafa sinn gang innan dómkerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert