„Þetta er ekki komið inn á borð til okkar en við köllum eftir því að nemendurnir leiti til okkar sem fyrst. Miðað við það sem við sjáum og lesum í fjölmiðlum hafa nemendur ríkari rétt en ætla má í málflutningi Tripical,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is
Í gær greindi mbl.is frá því að ferðaskrifstofan Tripical hefði sent útskriftarnemendum Menntaskólans á Akureyri (MA) póst þar sem þeim er gefinn sólarhringur til að ákveða hvort þau séu reiðubúin til að fara til Ítalíu í skugga heimsfaraldurs kórónuveiru.
Ef framangreindu ferðalagi var hafnað stóð nemendum til boða að velja milli fjögurra valkosta. Enginn af þeim fól í sér endurgreiðslu. Nemendur Fjölbrautarskóla Vesturlands fengu jafnframt sambærilega kosti.
Að sögn Breka eiga umræddir nemendur fullan rétt á endurgreiðslu. „Að óathuguðu máli eiga þeir rétt á 100% rétt á endurgreiðslu. Þetta er í raun alveg út í hött því miðað við það sem maður hafði heyrt í málflutningi menntskælinganna var búið að slá ferðina af. Það að veita sólarhringsfyrirvara er síðan auðvitað alltof stuttur tími,“ segir Breki og bætir við að ferðaskrifstofur séu tryggðar komi upp mál sem þessi.
„Lög um ferðaskrifstofur kveða á um að þær eigi að vera með tryggingar fyrir þessum ferðum. Hafi þær ekki staðið skil á þeim eins og í tilfelli ferðaskrifstofunnar Farvel þá er það bara sakamál,“ segir Breki sem kveðst þó sýna erfiðri stöðu Tripical vissan skilning. Slík staða geti hins vegar ekki ekki komið niður á neytendum.