„Þau sjónarmið eru uppi að málið sé ekki fullbúið. Það þarf að vinna það meira,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd.
Drög að frumvarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um breytingar á lögum um utanríkisþjónustu hafa verið til umræðu. Meðal breytinga sem þar má finna eru nýjar reglur um skipan sendiherra auk reglna um að slíkar stöður verði auglýstar.
Drögin birtust fyrst í samráðsgátt stjórnarráðsins snemma í marsmánuði. Málið hefur undanfarið verið til umræðu hjá utanríkismálanefnd. Að því er heimildir Morgunblaðsins herma eru mjög skiptar skoðanir um frumvarpið meðal nefndarmanna. Aðspurð segir Þorgerður að hún vilji sjá breytingar á því. „Þetta mál er ekki mjög pólitískt, en mér finnst ekki hægt að afgreiða það eins og það stendur núna. Það þarf meðal annars að útfæra skipanir betur auk þess að skerpa á málum fagsendiherra,“ segir Þorgerður.
Umræða í nefndinni er skammt á veg komin, en frumvarpið verður áfram til umfjöllunar hjá nefndinni í næstu viku.