Stækka friðlýsingu Hliðs

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, …
Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar við undirritunina í gær. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað auglýsingu um stækkun friðlýsingar fólkvangsins Hliðs á Álftanesi. Friðlýsingin er hluti af átaki stjórnvalda í friðlýsingum, en nýtt vefsvæði átaksins var opnað í dag.

Hlið var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. „Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar, en meðal tegunda sem finnast innan fólkvangsins eru margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra. Aðgengi að svæðinu er gott og því er það sérstaklega ákjósanlegt til útikennslu. Með stækkuninni er landsvæði þar sem áður var gert ráð fyrir byggingarlóðum orðið hluti fólkvangsins.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað auglýsingu um …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað auglýsingu um stækkun friðlýsingar fólkvangsins Hliðs á Álftanesi. Friðlýsingin er hluti af átaki stjórnvalda í friðlýsingum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Undirritunin fór fram í gær á Hliði að viðstöddum bæjarstjóra og fulltrúum bæjarstjórnar Garðabæjar, starfsfólki sveitarfélagsins, ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Að lokinni undirritun var boðið til pönnukökuveislu hjá Jóhannesi Viðari Bjarnasyni, verti í Hliði.

Á nýja vefsvæðinu er að finna almennar upplýsingar um friðlýsingar auk upplýsinga um fjölbreytt verkefni átaksins. Annars vegar hefur verið unnið markvisst að friðlýsingum ólíkra svæða á Íslandi þar sem þörf er talin á vernd. Hins vegar eru tiltekin átaksverkefni sem m.a. snúa að því að kanna áhrif friðlýsinga á nærsvæðum þeirra, auka fræðslu um eðli og tilgang friðlýsinga og auka umræðu um náttúruverndarmál í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert