Útivistarhópurinn Snjódrífurnar leggja af stað í göngu sína yfir Vatnajökul á morgun.
Snjódrífurnar standa að baki átaksverkefninu Lífskrafti, en markmiðið með Lífskrafti er að safna áheitum fyrir félögin Kraft, félag ungs fólks með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.
Sirrý Ágústsdóttir er upphafsmanneskja átaksins, en hún greindist með leghálskrabbamein árið 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið væri krónískt og töldu læknar að hún ætti þá eitt til þrjú ár eftir ólifað. Nú eru fimm ár síðan og Sirrý fékk vinkonurnar í Snjódrífum til að fagna lífinu og þessum tímamótum með sér.
Fyrirhugað er að gangan taki um 10 daga, en hópurinn mun ganga um 150 kílómetra leið frá Jökulheimum þvert yfir Vatnajökul í austurátt að Eyjabakkajökli. Liður í göngunni er að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu og vilja Snjódrífurnar hvetja landsmenn til að ganga með þeim í sinni heimabyggð þá daga sem þær eru á göngu á jöklinum.
Leiðangursstjórar eru Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari, og Brynhildur Ólafsdóttir, Landvættaþjálfari og fjallaleiðsögumaður. Verndarar göngunnar eru afi Sirrýjar, Gunnar Þórðarson á Borg í Arnarfirði, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og yfirmaður almannavarna.
Auk Sirrýjar, Vilborgar og Brynhildar skipa Snjódrífurnar Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Heiða Birgisdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.
„Það er mjög táknrænt fyrir mig og viss kaflaskil að takast á við svona krefjandi útivistaráskorun. Í veikindum mínum hef ég ætíð fókuserað á að taka eitt skref í einu og það sama mun ég gera á jöklinum. Ég er ekki mesta íþróttahetjan en ég hef viljann og þannig hef ég getuna til að klára þessa göngu líkt og með veikindin mín,“ segir Sirrý um gönguna.
„Lífið er alls konar og maður verður oft að bíta á jaxlinn og halda áfram, því lífið er svo æðislega skemmtilegt og gott. Við erum fjórar í hópnum sem höfum fengið krabbamein og náð að yfirstíga það. Mér finnst mikilvægt að koma þeim skilaboðum á framfæri, lífið er ekki búið þó að þú fáir krabbamein — þú verður bara að berjast og halda áfram, þannig munum við allar klára gönguna. Líf og Kraftur studdi okkur og núna viljum við gefa til baka.“
Nánari upplýsingar um gönguna og styrktarnúmer fyrir Lífskraft má finna á Facebook-síðu átaksins.