Efast um nauðsyn þess að skima

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, skrifar undir bréfið.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, skrifar undir bréfið. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að innheimta 15.000 króna gjald af ferðamönnum fyrir skimum gegn kórónuveirunni við komuna til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Gjaldið leggist illa í erlenda ferðaskipuleggjendur og vinni gegn áformum um að koma ferðaþjónustu aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og auka gjaldeyristekjur. 

„Í samskiptum við okkur hjá Gray Line tala [erlendir ferðaskipuleggjendur] tæpitungulaust um að þessi hái og óvænti viðbótarkostnaður sé rothögg og geti gert útslagið við ákvörðun ferðamanna um val á áfangastað,“ segir í tilkynningunni.

Þá er í tilkynningunni lýst efasemdum um nauðsyn þess að skima fyrir veirunni. „Fjöldi lækna hefur fært góð rök fyrir því að skimun á ferðamönnum sé til lítils og geti gefið falskt öryggi. Sóttvarnalæknir benti á það í byrjun faraldursins að erlendir ferðamenn hefðu ekki verið smitvaldar, heldur Íslendingar í samskiptum við Íslendinga,“ segir enn fremur. Færa megi rök fyrir því að ferðamenn fari varlegar í samskiptum ef þeir eru ekki skimaðir við komuna til landsins. Þeir hugi þá betur að fjarlægðarreglunni, handþvotti og öðrum vörnum heldur en ef þeir hafa fengið vottorð um að vera ekki smitaðir.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að mat vinnuhóps forsætis- og fjármálaráðuneytisins væri að hagkvæmara væri að láta ferðamenn standa straum af kostnaði við skimun, að teknu tilliti til mögulegra áhrifa þess á fjölda ferðamanna.

Þetta dregur Gray Line í efa og segir þetta „hagfræðilega rangt“. Fyrir hvern ferðamann sem ákveði að koma ekki hingað til lands verði þjóðfélagið af 250 þúsund króna gjaldeyristekjum að meðaltali. „Ef ekki verður einfaldlega hætt við alla skimun ferðamanna sem hingað koma, þá er nauðsynlegt að lágt gjald verði aðeins tekið til málamynda, eða hreinlega ekki neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert