Ekkert nýtt smit kórónuveiru greindist hér á landi í gær en eitt smit greindist í fyrradag, sem ekki var með í tölum sem birtar voru í gær. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að smitið hafi sennilega greinst seint 5. júní, en minni viðbúnaður er hjá almannavörnum um helgar sem skýrir hvers vegna smitið hafi ekki verið með í tölum sem birtar voru í gær.
Líkt og sjá má á covid.is greindist sá smitaði hjá Íslenskri erfðagreiningu og var utan sóttkvíar við greiningu. Þrír eru með virkt smit en 1.794 hafa náð bata.
27 sýni voru tekin í gær hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær en ekkert sýni var tekið hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Alls hafa nú 1.807 smit greinst á Íslandi, eitt þeirra í júní. Tekin hafa verið 62.795 sýni.