Ljósmynd af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sem birtist í kvikmyndinni Laundromat á Netflix undir yfirskriftinni „Iceland‘s Prime Minister has stepped down after being named in the papers,“ hefur verið fjarlægð úr kvikmyndinni.
Kvikmyndin segir frá konu, leikinni af Meryl Streep, sem flækist inn í vafasama fjármálagjörninga lögmannsstofunnar Mossack Fonseca í Panama og hvernig spilaborgin hrynur þegar Panama-skjölunum er lekið í fjölmiðla.
Aðalpersóna myndarinnar fréttir af því þegar hún situr í sakleysi sínu á almannafæri og horfir á sjónvarpið. Á skjánum birtist frétt úr miðlinum Time þar sem sagt er frá því að Sigmundur Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi sagt af sér embætti forsætisráðherra Íslands eftir að hafa verið afhjúpaður í lekanum. Samflokksmaður hans, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi tekið við. Engin mynd birtist af Sigmundi en mynd af Sigurði fékk að njóta sín á stærstum hluta skjásins.
Sigurður Ingi greinir frá því á Facebook að eftir að hann fékk lögmann til að ganga í málið tók Netflix atriðið úr myndinni og setti annað í staðinn „sem samræmist betur raunveruleikanum í málinu.“