Frekari könnun á hæfi Kristjáns Þórs tilgangslaus

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Frekari könnun á hæfi hans er tilgangslaus að mati meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Þetta kemur fram í bókun sem Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og framsögumaður málsins um frumkvæðisathugun á hæfi ráðherra, lagði fram á fundi nefndarinnar fyrir helgi og meirihluti hennar tók undir. Minnihluti nefndarinnar er ósáttur með niðurstöðuna og vildi að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tæki við framsögu málsins í stað Líneikar Önnu en meirihlutinn hafnaði því.

Þrír þingmenn samþykktu á á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 6. desember á síðasta ári að hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs gagnvart útgerðarfélaginu Samherja. Samkvæmt þingskaparlögum skal slík athugun fara fram ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna samþykkir.

Ekki tilefni til frekari umfjöllunar

Áður en frumkvæðisathugunin hófst mætti Kristján Þór á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í janúar og svaraði spurningum um hæfi sitt. Málið var aftur rætt á fundi nefndarinnar í mars og var þá ákveðið að kalla sérfræðinga til svara. Þeir ásamt öðrum gestum komu svo fyrir nefndina 4. júní og svöruðu spurningum nefndarmanna. Eftir þann fund telur meirihlutinn enga ástæðu til að fjalla frekar um málið og í bókun Líneikar segir:

„Eftir umfjöllun nefndarinnar liggur eftirfarandi fyrir.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur. Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“

Undir bókunina tóku Birgir Ármannsson og Óli Björn Kárason úr Sjálfstæðisflokknum, Þórunn Egilsdóttir úr Framsóknarflokknum, Þorsteinn Sæmundsson úr Miðflokki og Kolbeinn Óttarsson Proppé úr Vinstri grænum.

Málið ekki fullrannsakað 

Þórhildur Sunna lagði fram bókun um að minnihluti nefndarinnar telji málið ekki vera fullrannsakað og hafi því óskað eftir frekari gestakomum og frekari gagnaöflun.

„Afstaða meiri hlutans ber merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtir undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirðir sérstakt eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því,“ sagði þar og undir bókunina tóku Andrés Ingi Jónsson óháður þingmaður og Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Þá lagði Andrés Ingi fram tillögu um að Þórhildur Sunna tæki við framsögu málsins í stað Líneikar Önnu en tillagan var felld með sex atkvæðum gegn þremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert