Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, mun funda með fulltrúum Neytendastofu og Ferðamálastofu eftir hádegi í dag vegna samskipta ferðaskrifstofunnar Tripical við útskriftarnema sem eiga bókaðar ferðir með ferðaskrifstofunni í þessum mánuði.
Í síðustu viku greindi mbl.is frá því að Tripical hefði sent útskriftarnemendum Menntaskólans á Akureyri (MA) póst þar sem þeim er gefinn sólarhringur til að ákveða hvort þeir séu reiðubúnir til að fara til Ítalíu í skugga heimsfaraldurs kórónuveiru. Brottför var fyrirhuguð í dag en af henni varð ekki. Nemendur krefjast endurgreiðslu en Tripical hefur boðið nemunum fjóra aðra kosti; þar á meðal ferðalag til Hellu.
„Við fengum málið til skoðunar seint á föstudag og höfum ráðlagt nemendunum hvernig best er að haga samskiptum sínum við Tripical,“ segir Breki í samtali við mbl.is, en hann segir það ljóst að nemendur hafi ríkari rétt en ætla megi í málflutningi Tripical síðustu daga.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagðist fyrir helgi ekki gera ráð fyrir að frumvarp sitt sem varðar endurgreiðslur ferðaskrifstofa verði afgreitt á þingi. Tæki frumvarpið gildi væri ferðaskrifstofum og flugfélögum heimilað að endurgreiða fólki með inneignarnótu í stað peninga fyrir pakkaferðir sem féllu niður vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Neytendasamtökin hafa ekki leitað beint til Tripical en Breki segir það fyrsta skref eftir fundinn í dag en tilgangurinn með honum sé fyrst og fremst að fara yfir þau réttindi sem viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar hafa varðandi endurgreiðslu.
Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical, sagði í samtali við mbl.is í lok síðasta mánaðar að ferðaskrifstofun væri í „pattstöðu“ eins og margar aðrar ferðaskrifstofur þessa dagana þar sem löggjöf hafi víða tekið gildi í Evrópu sem heimili ferðaþjónustufyrirtækjum að „endurgreiða“ viðskiptavinum sínum, þar á meðal ferðaskrifstofunum, með inneignarnótum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Edda Kristín Bergþórsdóttir, sem er í forsvari fyrir ferðanefnd nemenda, segir nefndina hafa leitað til Neytendasamtakanna og Ferðamálastofu fyrir helgi. Nemendum hafa enn engin svör borist frá Tripical og mun ferðanefndin fara yfir næstu skref með lögfræðingum sínum í dag.
„Þessi ferð var aldrei að fara í gegn, hvort sem við hefðum viljað fara eða ekki,“ segir Edda Kristín. Hún vill þó koma því á framfæri að nemendurnir vilji ekki koma óorði á ferðaskrifstofuna, forgangsmál þeirra sé að fá ferðina endurgreidda. „Við viljum ekki fá inneignarnótu eða fara til Hellu eins og staðan er núna.“
Óvissa ríkir einnig um útskriftarferð nema við Menntaskólann í Kópavogi og Fjölbrautaskóla Vesturlands en báðir hóparnir eiga pantaða ferð til Krítar 14. júní. Nemendur í skólunum hafa flestir fengið sams konar póst frá Tripical og nemar við MA.