Viðar Guðjónsson
Icelandair hyggst hefja flug til tíu áfangastaða 15. júní næstkomandi. Áfangastaðirnir sem um er að ræða eru Kaupmannahöfn, Berlín, München, Amsterdam, Zürich, Frankfurt, París, Lundúnir, Stokkhólmur, Boston og Osló.
Að undanförnu hefur einungis verið flogið til Stokkhólms, Lundúna og Boston, með stuðningi frá ríkinu til þess að halda uppi flugsamgöngum til og frá landinu. Því er um að ræða átta áfangastaði sem hægt verður að fljúga til í fyrsta sinn eftir að flug féll niður vegna kórónuveirufaraldursins.
„Salan til og frá Kaupmannahöfn tók kipp um síðustu helgi. Fyrstu dagarnir eru vel bókaðir,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair. Að hennar sögn er einungis horft til tveggja vikna í einu í áætlanagerð. Þannig muni þessir áfangastaðir verða í boði í tvær vikur að lágmarki en þó gæti komið upp sú staða að ekki yrði farið í öll flug ef bókunarstaða er slök. Vinna stendur yfir við að skipuleggja flug frá 1.-15. júlí að sögn Birnu. „Við reynum að vera mjög dýnamísk og sveigjanleg til þess að geta tekið ákvarðanir með stuttum fyrirvara.“
Að hennar sögn hefur 15 þúsund króna skimunargjald sem kynnt var fyrir helgi haft áhrif á bókanir. „Því miður hefur verið svolítið um að Danir hafi afbókað sig og svo hafa komið afbókanir frá stórum þýskum hópum sem áttu eldri bókanir hingað. Þetta virðist trufla. Upphæðin er há,“ segir Birna í Morgunblaðinu í dag.