„Við viljum nýta dagana sem fram undan eru mjög vel og leita allra leiða til að forðast verkfall,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við mbl.is. Samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins er nýhafinn hjá ríkissáttasemjara.
Hjúkrunarfræðingar samþykktu á föstudag að fara í ótímabundið verkfall frá 22. júní, eftir tvær vikur. Rúm 85% félagsmanna FÍH samþykktu verkfallsboðunina.
Sverrir segir samninganefndirnar hafa átt í góðu samstarfi allan samningstímann. Enn beri þó mikið í milli og sé það helst launaliðurinn sem viðræðurnar stranda á. Krafa hjúkrunarfræðinga felst í hækkun grunnlauna en Sverrir segir að ríkið hafi teygt sig eins langt og kostur er.
Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif, ekki síst á Landspítalanum, og sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í forstjórapistli sínum fyrir helgi að án hjúkrunarfræðinga væri ekki hægt að reka sjúkrahús. „Ábyrgð samningsaðila er gríðarleg. Af verkfalli má ekki verða, svo einfalt er það,“ sagði Páll meðal annars.
Verkfallið mun einnig hafa áhrif á skimun við opnun landamæra síðar í þessum mánuði. Fram kom í máli framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í kvöldfréttum RÚV í gær að skimunin væri ógerleg án aðkomu hjúkrunarfræðinga. Aðspurður hvort það setji aukna pressu á samningaviðræðurnar segir Sverrir: „Störf hjúkrunarfræðinga eru mikilvæg og þetta hefur áhrif á allt heilbrigðiskerfið og öll verkefnin sem við stöndum frammi fyrir, en ég vil ekki draga eitt fram umfram annað.“