Leita allra leiða til að forðast verkfall

Frá fundi hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins í apríl.
Frá fundi hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins í apríl. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum nýta dagana sem fram undan eru mjög vel og leita allra leiða til að forðast verkfall,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við mbl.is. Samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins er nýhafinn hjá ríkissáttasemjara. 

Hjúkr­un­ar­fræðing­ar samþykktu á föstudag að fara í ótíma­bundið verk­fall frá 22. júní, eftir tvær vikur. Rúm 85% fé­lags­manna FÍH samþykktu verk­falls­boðun­ina. 

Sverrir segir samninganefndirnar hafa átt í góðu samstarfi allan samningstímann. Enn beri þó mikið í milli og sé það helst launaliðurinn sem viðræðurnar stranda á. Krafa hjúkrunarfræðinga felst í hækkun grunnlauna en Sverrir segir að ríkið hafi teygt sig eins langt og kostur er. 

Hefur áhrif á allt heilbrigðiskerfið

Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif, ekki síst á Landspítalanum, og sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í forstjórapistli sínum fyrir helgi að án hjúkrunarfræðinga væri ekki hægt að reka sjúkrahús. „Ábyrgð samn­ingsaðila er gríðarleg. Af verk­falli má ekki verða, svo ein­falt er það,“ sagði Páll meðal annars. 

Verkfallið mun einnig hafa áhrif á skimun við opnun landamæra síðar í þessum mánuði. Fram kom í máli framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í kvöldfréttum RÚV í gær að skimunin væri ógerleg án aðkomu hjúkrunarfræðinga. Aðspurður hvort það setji aukna pressu á samningaviðræðurnar segir Sverrir: „Störf hjúkrunarfræðinga eru mikilvæg og þetta hefur áhrif á allt heilbrigðiskerfið og öll verkefnin sem við stöndum frammi fyrir, en ég vil ekki draga eitt fram umfram annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka