Mikil ásókn í leikskólakennaranám

Ásókn í leikskólakennaranám hefur aukist mikið.
Ásókn í leikskólakennaranám hefur aukist mikið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun var í umsóknum um kennaranám í háskólum á Íslandi í ár. Á menntavísindasviði Háskóla Íslands fjölgar umsóknum um framhaldsnám leikskólakennara um 118% frá því í fyrra, umsóknum um grunnskólakennaranám um 85%, framhaldsskólakennaranám um 47% og 67% í íþróttakennaranámið. 

Að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fjölgaði umsóknum um kennaranám í öllum háskólunum fjórum, Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.  

Umsóknum um nám við listkennsludeild Listaháskólans heldur áfram að fjölga. Fjölgunin nam 122% í fyrra og aftur fjölgaði um 12% nú. 

„Þetta eru virkilega gleðileg tíðindi – það að fjölga starfandi kennurum og stuðla að nýliðun í kennarastétt er langhlaup en fjölgun umsókna er frábært fyrsta skref. Það er spennandi nám og starfsvettvangur í boði, sem býður upp á bæði sveigjanleika og starfsöryggi. Samfélagið hefur áttað sig á mikilvægi kennarastarfsins, ekki síst í ljósi atburða síðustu mánaða,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu. 

Þar er þess getið að liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að efla menntun í landinu sé að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og því bjóðist kennaranemum nú launað starfsnám og hvatningarstyrkir að upphæð 800.000 kr. Þá geta starfandi kennarar einnig fengið styrk til þess að efla sig í starfi og bæta við sig námi í starfstengdri leiðsögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert