Samningafundi í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins lauk á fimmta tímanum í dag, en þá hafði hann staðið í tæpa þrjá tíma.
„Þetta var þungur fundur og erfiður,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann ekki hafa verið boðað til nýs fundar.
„Við viljum nýta dagana sem fram undan eru mjög vel og leita allra leiða til að forðast verkfall,“ sagði Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, fyrr í dag.
Hjúkrunarfræðingar samþykktu á föstudag að fara í ótímabundið verkfall frá 22. júní, eftir tvær vikur. Rúm 85% félagsmanna FÍH samþykktu verkfallsboðunina.