Frá og með gærdeginum eru framdyr strætisvagna opnar farþegum og engar fjöldatakmarkanir eða fjarlægðarmörk í gildi. Framdyr strætó voru lokaðar í mars vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir framkvæmdina hafa gengið þokkalega. „Eftir að við lokuðum fyrst fannst okkur fólk borga fargjöldin sómasamlega. Þegar það fór svo að líða á varð fólk kannski aðeins afslappaðra og reiddi ekki endilega alltaf fram rétt fargjald. Það hefur verið svo miklu minna eftirlit en hefðbundið er hingað til og erfitt fyrir vagnstjóra að fylgjast með þessu. Það eina sem þeir sjá í rauninni er í baksýnisspeglinum. Vonandi förum við að sjá aðeins meiri tekjur í kassann núna, samhliða því að við opnum framdyrnar aftur.“
Áfram verður í strætisvögnum sérstakt svæði fyrir þá farþega sem kjósa að halda fjarlægð frá öðrum. Guðmundur segir að fremstu stöku sætin í vögnunum verði notuð fyrir þá einstaklinga.