Kanna möguleika á íslensku gervitungli

Space Iceland athugar hvort hægt sé að þróa gervitungl á …
Space Iceland athugar hvort hægt sé að þróa gervitungl á Íslandi. AFP

„Ísland er partur af geimrannsóknum, og við verðum partur af geimrannsóknum, en spurningin er hvort við ætlum að gera það á okkar forsendum eða ekki,“ segir Atli Þór Fanndal, verkefnastjóri Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar (Space Iceland).

Space Iceland stendur nú fyrir kortlagningu á tæknilegri getu á Íslandi til að þróa íslensk gervitungl, auk rannsóknar á þörf fyrir slíkar aðgerðir á íslenskum markaði. Íslensk gervitungl gætu, að sögn Atla, gegnt mikilvægu hlutverki í landbúnaði og veðurmælingum, en mikilvægt sé að slík gervitungl svari íslenskum þörfum.

Ísland kjörinn staður til rannsóknir

„Ísland hefur lagt mikið til geimvísinda,“ segir Atli, „þótt við höfum ekki gert það á eigin forsendum.“ Ísland hefur verið tíður æfingastaður fyrir geimfara, og voru tveir hópar væntanlegra Appolo tunglfara þjálfaðir hér á landi. Þar að auki skutu franskir upp fjórum eldflaugum á árunum 1964-65, tveimur frá Mýrdalssandi og tveimur frá Skógarsandi.

Atli Þór segir talsverða þekkingu vera til staðar á Íslandi, en að það sé markmið Geimferða- og tækniskrifstofunnar að sameina þessa þekkingu og styrkja stöðu Íslands gagnvart Geimvísindastofnun Evrópu. Hann segir Ísland vera kjörinn stað til geimrannsókna. Ekkert land hafi jafn auðvelt aðgengi að landgæðum, góða staðsetningu á milli Evrópu og Norður Ameríku, og góðar flugsamgöngur.

Ef Íslendingar taka ekki þátt í Geimvísindastofnun Evrópu segir Atli hættu á að þeir missi af því að nýta verðmætasköpun tengda geimvísindum, og verði ekki hluti af þessari ört vaxandi atvinnugrein.

Safna íðorðum fyrir íslensk geimvísindi

Space Iceland stendur einnig fyrir verkefni í samstarfi við Árnastofnun tengdu íðorðasöfnun og myndun nýrra íðorða fyrir íslensk geimvísindi og tækni. Geimvísindi séu afar alþjóðleg og samskipti innan sviðsins fara oftast fram á ensku, svo oft skorti íslenskar þýðingar á hugtökum. „Við viljum að íslenska verði tungumál geimvísinda og tækni á Íslandi,“ segir Atli, en íðorðafræðingar á vegum Geimvísindastofnun Evrópu og Geimvísindastofnun Kanada munu aðstoða við verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert