Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir samningstilboð ríkisins í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga vera sambærilegt lífskjarasamningnum. Fundarhöld hafi verið þung en enn er deilt um launalið samningsins.
„Þó svo að fundur hafi ekki verið boðaður þá situr fólk ekki auðum höndum“, sagði Sverrir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á þingfundi í gær að ekki sé hægt að fallast á kröfur sem sprengi forsendur almennra kjarasamninga.
Aðspurður hvort samningstilboð ríkisins samræmist lífskjarasamningnum segir Sverrir: „Við höfum lokið samningum við rúmlega 80% starfsmanna ríkisins sem þau hafa samþykkt. tilboð okkar til hjúkrunarfræðinga er alveg á pari við alla þá,“ sagði Sverrir.
Samningafundi í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins lauk á fimmta tímanum í gær eftir þriggja tíma fundarhöld. Ríkissáttasemjari mun boða til sáttafundar á næstu dögum.
„Það sem stendur út af er launaliðurinn en það er svo margt annað í samningnum sem verður að telja til gæða og býr til betra starfsumhverfi. Sem dæmi er tryggður 30 daga orlofsréttur frá fyrsta starfsári og 10 daga námsleyfi sem er launað á hverju ári,“ sagði Sverrir.
Málið er þungt að sögn Sverris en samninganefndirnar eiga í mjög góðu samstarfi að hans sögn. „Það eru allir að leggja sig fram um að ná samningi,“ sagði Sverrir.