Slökkva á kollinum og halda áfram

Útivistarhópurinn Snjódrífurnar hóf vegferð sína yfir Vatnajökul á sunnudaginn, en þegar mbl.is náði tali af hópnum um þrjúleytið í dag nálguðust þær óðfluga Grímsvötn og stefna þær að því að gista þar í nótt. Leiðin er rúmlega 150 kílómetrar frá austri til vesturs og segir Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari og leiðangursstjóri, stemmninguna í hópnum góða.

„Það gekk rosalega vel á fyrsta degi,“ segir Vilborg Arna, en Snjódrífurnar skíðuðu ellefu kílómetra á sunnudaginn, en í gærmorgun var brottförinni frestað vegna veðurs. Klukkan níu í gærkvöldi hélt hópurinn ferðinni áfram, og skíðaði tíu kílómetra í grenjandi rigningu og roki. Vilborg segir jöklaferðamennsku á Íslandi afar krefjandi, og þurfi ferðalangar að vera vel undirbúnir, bæði líkamlega og andlega.

„Þetta tekur á,“ segir Soffía S. Sigurgeirsdóttir, félagi í Snjódrífunum. „Við erum allar í góðu líkamlegu formi, en svo er það kollurinn. Maður þarf að slökkva á honum og halda áfram.“ Soffía segir hópinn hafa verið þreyttan eftir göngu næturinnar, en þær hafi vaknað jákvæðar og glaðar. „Það var yndislegt að vakna í morgun, þá kikkaði inn þessi hvatning og hugsun af hverju við erum hérna. Nú eru 23 kílómetrar í Grímsvötn og við stefnum á að vera komin þangað rétt fyrir miðnætti í kvöld.“

Fyrirhugað er að ferðin standi í tíu daga, en ferðatíminn er háður veðri og aðstæðum á jöklinum. Snjódrífurnar standa að baki átaksverinu Lífskrafti, og tilgangur ferðarinnar er að safna áheitum fyrir félögin Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, og Kraft, félag ungs fólks með krabbamein.

Málefni suðningsfélaganna standa Snjódrífunum nærri, en fjórir liðsmenn hópsins hafa þurft að glíma við krabbamein. Auk þess er forsprakki hópsins, G. Sirrý Ágústsdóttir, greind með krónískt krabbamein. Soffía segir mikla hvatningu innan hópsins og vonast hún til að sú hvatning skili sér til Íslendinga. „Við vonum að þau styðji við okkur og þetta góða málefni sem við erum að reyna að safna fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka