Tripical segir Icelandair neita að endurgreiða

Ein forsenda þess að Tripical geti endurgreitt viðskiptavinum sínum sem …
Ein forsenda þess að Tripical geti endurgreitt viðskiptavinum sínum sem eiga bókaðar ferðir í sumar er að Icelandair endurgreiði ferðaskrifstofunni. Því hefur verið neitað hingað til að sögn annars eiganda Tripical. mbl.is/Hari

Icelandair er meðal þeirra flugfélaga sem hefur neitað ferðaskrifstofunni Tripical um endurgreiðslu að því er fram kemur í skriflegu svari Elísabetar Agnarsdóttur, annars eiganda Tripical, við fyrirspurn mbl.is. Ferðaskrifstofan vinnur að því að reyna að fá endurgreitt frá samstarfsaðilum, flugfélögum og hótelum svo fyrirtækið geti endurgreitt viðskiptavinum sínum ferðir sem þeir eiga bókaðar í sumar. 

Í síðustu viku greindi mbl.is frá því að Tripical hefði sent út­skrift­ar­nem­end­um Mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri póst þar sem þeim er gef­inn sól­ar­hring­ur til að ákveða hvort þeir séu reiðubú­nir til að fara til Ítal­íu í skugga heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru. Brott­för var fyr­ir­huguð í gær en af henni varð ekki.

Nem­end­ur krefjast end­ur­greiðslu en Tripical hef­ur boðið nem­un­um fjóra aðra kosti. Nemendur MA hafa ráðið sér lögfræðinga vegna málsins og Neytendasamtökin, Neytendastofa og Ferðamálastofa komu saman á fundi í gær þar sem næstu skref voru rædd. 

Hafa ekki bolmagn til að endurgreiða öllum viðskiptavinum

Í svari Elísabetar segir að Icelandair hafi einungis boðið Tripical inneignir. „Við erum lítið fjölskyldufyrirtæki og álagning okkar er eingöngu 10-15%. Því höfum við ekki bolmagn til þess að endurgreiða öllum okkar viðskiptavinum. Við þurftum þegar ferðir voru bókaðar á sínum tíma að greiða meirihluta til okkar samstarfsaðila sem hafa nú neitað okkur um endurgreiðslur og bjóða eingöngu inneignir sem hægt er að nota út árið 2021,“ segir í svari Tripical. 

Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical.
Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaskrifstofan vonast til að geta skýrt nánar frá stöðu mála í byrjun næstu viku. Þangað til hvetur Tripical viðskiptavini til þess að svara póstum varðandi þá valmöguleika sem boðnir hafa verið, en endurgreiðsla er ekki einn af þeim. 

„Við hörmum mjög þessar aðstæður sem Covid-19-faraldurinn hefur valdið okkar viðskiptavinum. Okkar langar til að árétta að frá stofnum félagsins hefur Tripical ávallt efnt sínar skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum sem og öðrum aðilum,“ segir í svari Tripical.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert