Alvarlegasta smithættan á djamminu

Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tóku til máls …
Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tóku til máls á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Enn stendur ekki til að rýmka afgreiðslutíma á skemmtistöðum landsins, sem áfram mega aðeins vera með opið til ellefu á kvöldin. Á sama tíma og veitingamenn muna sinn fífil fegurri segir sóttvarnalæknir að hann vilji bíða með framlengingu afgreiðslutíma skemmtistaða „eins lengi og hægt er“.

„Ég held að þetta sé alvarlegasta og stærsta smitleiðin og smithættan að hafa fólk á djamminu saman niðri í bæ á þröngum stöðum. Ég held að það sé mikil áhætta og við höfum reynslu af því og upplýsingar um það erlendis frá,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag. 

Þórólfur sagðist ekki sjá fyrir sér hvenær væri hægt að lengja afgreiðslutíma skemmtistaða. Það lægi fyrir að það yrði ekki gert 15. júní. Eftir það verður beðið í nokkrar vikur eins og verið hefur og síðan metið hvort unnt sé að ráðast í breytingar. Þann 15. júní er óháð þessu verið að víkka samkomutakmarkanir úr 200 manna hámarki í 500. Þá mega sundlaugar og líkamsræktarstöðvar taka eins marga gesti og leyfi leyfa.

Veitingamenn hafa allar götur síðan fyrstu samkomutakmarkanir tóku gildi kvartað undan því að þær hafi sérstaklega neikvæð áhrif á reksturinn. Sumum stöðum hefur verið lokað vegna brots á reglunum, en krafan um lengri afgreiðslutíma er sannarlega enn til staðar.

Þórólfur segir að reglurnar, sem heilbrigðisráðherra hefur endanlegt ákvörðunarvald um, séu unnar í samráði við lögreglu. „Við höfum rætt það við lögreglustjóra á landinu og það eru langflestir sem eru sammála þessu. Það verður að koma í ljós hvernig þetta verður í framhaldinu. Það er erfitt að sjá langt fram í tímann hvað við ætlum að gera og hvenær við ætlum að breyta ákveðnum hlutum, við verðum að sjá áhrif hverju afléttingarnar sem við erum að fara í skila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert