Hjúkrunarráð hefur lýst yfir áhyggjum af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar hjúkrunarráðs Landspítalans, sem birt var í gær.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðað til verkfalls sem á að hefjast 22. júní og standa þangað til samningar hafa náðst, og hvetur hjúkrunarráð stjórnvöld til að ganga frá samningum við félagið áður en verkfallið hefst.
Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í fimmtán mánuði, en samningaviðræður hafa staðið yfir frá því í lok apríl, eftir að hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning.
Í ályktun hjúkrunarráðs segir að þrátt fyrir að vera samningslausir hafi hjúkrunarfræðingar staðið vaktina í heimsfaraldri, og gert það með mikilli sæmt, en að langvarandi samningsleysi og yfirvofandi verkfall hafi alvarleg áhrif á þjónustu heilbrigðiskerfisins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur tileinkað árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum, og hvetur stofnunin þjóðir heimsins til að fjárfesta í hjúkrun.