„Ég hef átt samtöl við báðar samninganefndir og í kjölfar þeirra samtala var tilefni til að boða til fundar til þess að fara yfir ýmis mál,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is um fyrirhugaðan fund í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem fer fram á morgun.
Aðalsteinn vill þó ekki tjá sig frekar um stöðuna í kjaraviðræðunum.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðað til ótímabundins verkfalls sem hefst að óbreyttu 22. júní. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af fyrirhuguðu verkfalli og áhrifa þess á verkefnið um skimun á landamærum Íslands sem hefst 15. júní sem og heilbrigðiskerfið í heild.
Síðasti sáttafundur fór fram á mánudag en honum lauk án niðurstöðu eftir þrjár klukkustundir. Ekki þótti tilefni til að boða til nýs fundar á mánudaginn en það breyttist í gær þegar ákveðið var að fundur yrði haldinn á morgun.
Hjúkrunarfræðingar hafa verið án samnings í 15 mánuði. Samningur náðist milli samninganefnda í apríl en hann var felldur af hjúkrunarfræðingum síðar í sama mánuði.
Það sem út af stendur í samningaviðræðum er launaliðurinn en Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, hefur sagt að samningstilboð ríkisins sé sambærilegt lífskjarasamningnum.
Ekki náðist í Guðbjörgu Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, við vinnslu fréttarinnar.