Sjálfsfróun við róluvöll „nánast daglegt brauð“

Foreldrar í Grafarvogi hafa fengið sig fullsadda af perra sem …
Foreldrar í Grafarvogi hafa fengið sig fullsadda af perra sem býr við rólóvöll og fróar sér í augsýn barna.

Karlmaður í Rimahverfi hefur um langt skeið stundað það að fróa sér í stofuglugga sínum á meðan hann horfir út á róluvöll sem er aðeins nokkrum metrum frá húsi hans. Hann býr á jarðhæð og krakkarnir sjá hann skýrt þegar hann stendur úti í glugga. Nokkur umræða hefur myndast meðal íbúa hverfisins og nú síðast hefur einhver farið og límt fyrir gluggana á húsi mannsins.

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er foreldri barns í hverfinu. Sonur hennar, 13 ára, hefur orðið fyrir barðinu á því sem fólk er farið að kalla „hverfisperrann“. Ragnheiður segir að þetta hafi gengið á mánuðum saman.

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er foreldri barns sem hefur orðið fyrir …
Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er foreldri barns sem hefur orðið fyrir barðinu á manninum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er félagsráðgjafi og hef séð ýmislegt. Mér þótti leiðinlegt þegar strákurinn minn lenti í að sjá þetta og hélt að þetta væru einstaka tilvik. Þegar ég og maðurinn minn stofnuðum Facebook-hóp til þess að skipuleggja okkur gegn þessu, streymdu inn umsóknir í hópinn og þeim fylgdu frásagnir sem voru eins og þær sem við þekktum. Mér brá bara við að sjá þetta og ég var miður mín að sjá hversu mikill fjöldi barna hefur lent í þessu frá síðasta sumri,“ segir Ragnheiður við mbl.is.

„Ég ræddi þetta þá betur við strákinn minn, sem sagði að þetta væri nánast bara daglegt brauð,“ sagði hún. 

Börnin tala um perrann

Um er að ræða lítinn róluvöll í Rimahverfi og umræddur maður býr á neðstu hæð með garð sem liggur að róluvellinum. Hann stendur að sögn Ragnhildar oft í glugganum, horfir á börnin og fróar sér. Stundum hefur hann haft opnar svaladyrnar eða komið út í garð, án þess að hann fari beinlínis út fyrir sinn eigin garð.

Að sögn Ragnheiðar hefur hefur maðurinn áður hlotið dóm fyrir að bera sig fyrir fólki og mun oftar verið tilkynntur til lögreglu. Fjöldi tilkynninga er á borði yfirvalda vegna mannsins.

„Þetta hefur gengið á lengi og mánuðum eftir að fyrstu tilkynningarnar fóru að berast er hann enn daglega úti í glugga að gera þetta, segir Ragnheiður. „Börnin tala sín á milli um perrann sem er þarna og þetta ástand er bara ekki boðlegt. Það er hvorki hægt að bjóða börnum upp á þetta né er æskilegt að hafa hann þarna í þessu ástandi. Það þarf að grípa inn í og veita honum einhvers konar hjálp,“ segir Ragnheiður. 

Mikill fjöldi foreldra hefur gengið í Facebook-hópinn sem Ragnheiður og eiginmaður hennar, Sigurður Hólm Gunnarsson, stofnuðu vegna málsins. Stefnan er að koma sveitarfélaginu og þar til bærum yfirvöldum í skilning um að aðhafast þarf í málinu áður en fleiri og verri tilvik koma upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert