Um áttatíu milljónir barna í hættu

Regluleg ónæmisþjónusta hefur verið skert í sextíu og átta löndum …
Regluleg ónæmisþjónusta hefur verið skert í sextíu og átta löndum vegna kórónuveirunnar. AFP

Milljónum reglulegra bólusetninga hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins og segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi, vandamálið mjög alvarlegt.

Síðan í mars hefur regluleg ónæmisþjónusta fyrir börn verið skert í aðgerðum gegn útbreiðslu kórónuveirunnar, en í kjölfarið hafa UNICEF, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og bólusetningarbandalagið Gavi, varað við aukinni áhættu af völdum sjúkdóma á borð við barnaveiki, mislinga og lömunarveiki.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru líkur á talsverðri skerðingu á ónæmisþjónustu í sextíu og átta löndum, sem gæti haft áhrif á allt að áttatíu milljónir barna undir eins árs aldri.

„Þannig til að verja fólk fyrir einum sjúkdómi er verið að setja líf milljóna barna í hættu,“ segir Birna í samtali við mbl.is. Hún segir áskorunina fyrir UNICEF vera risastóra, og að hlutverk UNICEF á Íslandi sé fyrst og fremst að safna fé til að senda út svo hægt sé að bregðast við þar sem neyðin er mest.

„Núna er allur þungi fjáröflunar UNICEF til að bregðast við kórónuveirunni. Veiran er í raun viðbótarbaggi á alla neyðina sem verið er að bregðast við um allan heim,“ segir Birna.

Hún segir mikilvægt fyrir Íslendinga að læra af reynslunni sem safnast hefur í baráttunni við faraldurinn.  „Við höfum þurft að láta reyna á mikilvægi hreinlætis, mikilvægi aðgengis að sápu og mikilvægi aðgengis að heilsugæslu á eigin skinni,“ segir Birna, en hlutverk UNICEF er að veita slíkt aðgengi á viðkvæmum stöðum í heiminum.

„Ég held að þetta þroski okkur, og geri okkur kleift að skilja betur hvað þessi mál skipta miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert