UNICEF á Íslandi í sérflokki

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar eru stærstu styrktaraðilar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna miðað við höfðatölu. Þetta kom fram á ársfundi UNICEF á Íslandi sem haldinn var á Þjóðminjasafninu í dag, en Íslendingar eru ofarlega á lista þegar kemur að heildarframlögum frá ríki, einstaklingum og fyrirtækjum.

Söfnunarfé UNICEF á Íslandi nam 727 milljónum króna í fyrra, en framlag Heimsforeldra var stærsti liðurinn í tekjum nefndarinnar, eða tæp 83%. Heimsforeldrum fjölgaði um 1.770 á árinu, og eru nú 26.400 talsins. 

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmum 493 milljónum var varið til almenns hjálparstarfs í löndum þar sem þörfin er mest, og heildarframlög til neyðar námu tæpum 13 milljónum. Sérstakar neyðarsafnanir fóru fram í þágu barna á stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi og Jemen. Þar að auki hófst söfnun í alþjóðlegan neyðarsjóð til að bregðast við aukinni neyð vegna loftslagsbreytinga.

Þá jukust framlög til innanlandsverkefna um tæp 44%, 77% af heildarsöfnunarfé samtakana fóru til verkefna UNICEF, á móti 23% sem var kostnaður við fjáröflun, kynningarmál, stjórnun og rekstur samtakanna.

Birna Þórarinsdóttir, sem tók við starfi framkvæmdarstjóra UNICEF á Íslandi í síðasta mánuði, segir starfið á Íslandi gríðarlega öflugt, en að verkefni UNICEF á heimsvísu vera risastór, sérstaklega í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

„Það kemur neyð ofan á þá neyð sem fólk býr við að jafnaði,“ segir Birna. Hún segir að áhersla verði lögð á að halda áfram því öfluga fjáröflunarstarfi sem samtökin hafa staðið fyrir, til að styðja við verkefni UNICEF úti í heimi.

Vekja athygli á ofbeldi gegn börnum

Á síðasta ári var undirritaður samningur við félags- og barnamálaráðherra um þátttöku félagsmálaráðuneytisins í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Verkefnið stefnir að því að á næsta áratug hafi íslensk stjórnvöld og öll sveitafélög hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans. 

Birna segir UNICEF á Íslandi njóta mikils stuðnings stjórnvalda, sérstaklega við félagsmálaráðuneytið, og að innanlandsþjónusta samtakanna hafi verið afa sterk á síðasta ári.

Stærsta átaksverkefni UNICEF á Íslandi á síðasta ári var herferðin Stöðvum feluleikinn, sem ætlað er til að vekja athygli á heimilisofbeldi eða kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. 16,3% barna hér á landi verða fyrir slíku ofbeldi fyrir átján ára afmælisdag sinn. 

Samhliða átakinu var sett af stað undirskriftasöfnun sem ætlað var að setja þrýsting á stjórnvöld til að taka til aðgerða og koma á stofn ofbeldisvarnaráði sem hefði það hlutverk að vakta tölfræðigögn um tíðni ofbeldis gegn börnum á Íslandi og sinna markvissum forvörnum og fræðslu. Auk þess var þrýst á að öll sveitarfélög settu sér skýra viðbragðsáætlun um ofbeldi gegn börnum. 

Kjartan Örn Ólafsson, stjórnarformaður UNICEF, ávarpaði fundinn í morgun.
Kjartan Örn Ólafsson, stjórnarformaður UNICEF, ávarpaði fundinn í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Alls söfnuðust 11.430 undirskriftir og um 30 sveitarfélög tóku pólitíska ákvörðun um að yfirfara verkferla sína og viðbragðsáætlanir vegna ofbeldis gegn börnum. Einnig hefur félags- og barnamálaráðherra tilkynnt að hann myndi setja á stofn miðstöð um ofbeldi gegn börnum.

„Það að við lyftum upp innanlandsverkefnum okkar í árskýrslu okkar sé fallegur vitnisburður um það að barnasáttmálinn nái utan um réttindi allra barna. Okkar starfsemi endurspeglar það. Við erum til staðar bæði fyrir börn á Íslandi og börn annars staðar í heiminum,“ segir Birna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka