Skáldaga Ragnars Jónassonar, Dimma, er í öðru sæti á metsölulista þýska miðilsins Der Spiegel. Bókin hefur nú verið á listanum í 3 vikur, fyrst í 14. sæti, þá í því sjötta og loks í öðru sæti.
„Ég eiginlega trúi þessu ekki. Maður horfir á þetta og skilur þetta eiginlega ekki,“ segir Ragnar. „Ég hefði bara aldrei trúað því að ég kæmist á þennan metsölulista yfirhöfuð. Hvað þá í annað sæti.“
Fyrirhugað er að önnur bókin í þríleik Ragnars sem hefst á Dimmu, Drungi, komi út í júlí í Þýskalandi og Mistur, sem er lokabók þríleiksins, komi út í september. „Öll serían kemur út á einu ári, sem er mjög frumleg hugmynd hjá Þjóðverjunum,“ segir Ragnar. Þetta er einungis í annað sinn sem íslensk skáldsaga nær svo hátt á metsölulistanum, en skáldsaga Arnalds Indriðasonar, Napóleonsskjölin, naut mikilla vinsælda í Þýskalandi árið 2005. Er því um að ræða besta árangur íslensks höfundar í Þýskalandi í 15 ár.