Samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins gekk ágætlega hjá ríkissáttasemjara í dag.
Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún tekur fram að minni mál sem auðveldara er að ná saman um hafi verið rædd og staðan í viðræðunum sé jafnerfið og áður.
„Þær eru mjög flóknar og bara mjög þungar og erfiðar,“ svarar Guðbjörg um viðræðurnar, sem hún segir lítið hafa þokast áfram „Þannig að sú staða hefur ekkert breyst.“
Spurð hvort hún sé bjartsýn á að samningar náist áður en ótímabundið verkfall brestur á 22. júní segir hún: „Ég er ekki mjög bjartsýn en á meðan við erum að hittast þá tel ég von. Ég hef miklar áhyggjur af stöðunni.“
Undirbúningur fyrir verkfallið er í fullum gangi. Aðgerðirnar eru stórt og umfangsmikið mál sem krefjast mjög mikillar skipulagningar, bætir hún við.
Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður á mánudaginn klukkan 14 hjá ríkissáttasemjara. Þá verða áfram rædd þau mál sem farið var yfir í dag.