Goðafoss friðlýstur

Auk ráðherra eru á myndinni fulltrúar landeigenda, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, Umhverfisstofnunar …
Auk ráðherra eru á myndinni fulltrúar landeigenda, sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Goðafoss í Skjálfandafljóti í dag.

Fossinn er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Norðurlands.

Goðafoss er með vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og er ásýnd hans fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð, að því er kemur fram í tilkynningu.

Fossinn er 9 til 17 metra hár og um 30 metra breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey og afmarkast hún af Hrúteyjarkvísl, sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss, en sameinast fljótinu aftur alllöngu neðar.

Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Meginmarkmið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan og er hann friðlýstur sem náttúruvætti. Friðlýsingin felur meðal annars í sér að náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn er viðhaldið sökum fegurðar hans og sérkenna og útivistargildis svæðisins.

„Í dag friðlýstum við eina helstu náttúruperlu landsins,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni. „Með friðlýsingunni verður komið á skipulegri umsjón með svæðinu með landvörslu og þar með einnig fræðslu og eftirliti. Friðlýsing Goðafoss er afar ánægjulegt skref í náttúruvernd á Íslandi og tryggir að komandi kynslóðir geti notið hans um ókomna tíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka