Komið á borð kynferðisafbrotadeildar

Blygðunarsemisbrot geta varðað allt að 4 ára fangelsi.
Blygðunarsemisbrot geta varðað allt að 4 ára fangelsi. mbl.is/Árni Sæberg

Mál karlmanns í Rimahverfi, sem sakaður er um að hafa ítrekað stundað sjálfsfróun í stofuglugga sínum, í augsýn grunnskólabarna, er nú til rannsóknar hjá kynferðisafbrotadeild lögreglunnar. Ekki er útilokað að maðurinn verði ákærður fyrir athæfið. 

„Tilkynningarnar um mál sem þessi eru því miður fleiri en þær ættu að vera. Við hvetjum fólk til að tilkynna mál sem þessi,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar. 

Útilokar hún ekki að málið endi með ákæru á hendur manninum, sem hefur áður verið dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot. Fjöldi tilkynninga hafa borist lögreglu vegna mannsins. 

„Hingað til höfum við fengið tilkynningar frá einstaklingum í hverfinu. Vissulega er þetta ómögulegt og við munum sannarlega skoða þetta mál,“ sagði Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar að Vínlandsleið.

Í 209.gr. almennra hegningarlaga segir: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.“ 

Þá segir einnig í 199.gr. sama lagabálks að hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skuli sæta fangelsi allt að 2 árum en til hennar telst m.a. áreiti í táknrænni hegðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert