Ákæra á hendur konu á sextugsaldri, sem gefið er að sök að hafa féflett tvær heilabilaðar systur á tíræðisaldri, var þingfest í morgun. Konan og eiginmaður hennar, sem er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa tekið við ávinningi af meintum brotum konunnar, geymt hann og nýtt, neituðu bæði sök við þingfestingu og höfnuðu bótakröfu. „Kæran sem þetta byggist á er uppspuni frá rótum,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson lögmaður konunnar.
Lögráðamaður annarrar systurinnar óskaði eftir því að hún og annar lögmaður yrðu skipuð sem réttargæslumenn systranna. „Hvað eiga þeir að gera?“ spurði Sigurður lögmaður og sagði að málflutningur hefði þegar farið fram í fjölmiðlum. Gerði hann einnig alvarlegar athugasemdir við húsleit, sem gerð var á heimili hjónanna, hefði hald verið lagt á ýmsa muni og þeim ekki skilað þótt færðar hafi verið sönnur á að þeir væru í eigu eiginmannsins, en ekki systranna.
Vísaði lögráðamaðurinn í 43. grein laga um sakamál og sagði þörf á réttargæslumönnum vegna bótakröfu sem gerð er í málinu og þeirrar staðreyndar að systurnar hafa báðar verið sviptar fjár- og sjálfræði.
Ákæran á hendur konunni er í 11 köflum, en henni er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína til að hafa fé af konunum. Annars vegar er ákærðu gefið að sök að hafa í 2.166 tilvikum dregið samtals 23.327.502 krónur af bankareikningum yngri systurinnar og ráðstafað þannig fjármunum hennar heimildarlaust bæði í eigin þágu og fjölskyldu sinnar. Í kærunni kemur fram að ákærða hafi til að mynda notað fjármuni systurinnar til að greiða fyrir leigubílaþjónustu, fatnað í Hugo Boss, máltíð í Luxemborg og fleira.
Hins vegar er ákærðu gefið að sök að hafa dregið sér í 34 tilvikum samtals 52.047.338 krónur af bankareikningi yngri systurinnar, annars vegar með því að taka fjármuni út í reiðufé og hins vegar með gjaldeyriskaupum og ráðstafa þeim svo heimildarlaust í eigin þágu og fjölskyldu sinnar.
Málið er að sögn lögmanns „mjög umfangsmikið“ og óskaði hann eftir fresti fram í september til að skila greinargerð vegna anna, og sumarfrís sem hann hyggst taka sér. Féllst dómari á það og hefur aðalmeðferð verið ákveðin, miðvikudaginn 30. september klukkan 9:15.