Mikill meirihluti notar ekki vímuefni

Samvera foreldra og barna er mikilvægur og verndandi þáttur.
Samvera foreldra og barna er mikilvægur og verndandi þáttur. mbl.is/Ófeigur

Yfirgnæfandi meirihluti barna í tíunda bekk hefur aldrei reykt, notað hass eða maríjúana eða neytt áfengis síðasta mánuðinn. Börn sem eru mikið með foreldrum sínum í frítíma og taka þátt í íþróttum eða öðru tómstundastarfi eru ólíkleg til að neyta vímuefna. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Margrétar Lilju Guðmundsdóttur, kennara við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík og sérfræðings hjá Rannsóknum & greiningu.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, kennari við HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum …
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, kennari við HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum & greiningu.

Margrét fjallaði í fyrirlestri í hádeginu um niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk 2020 út frá áhættu og verndandi þáttum í lífi ungmenna.  

Hún segir hlutverk okkar að  byggja upp verndandi þætti og draga úr áhættuþáttum. Að ræða við börnin og fylgjast með þeim. Að vita með hverjum þau eru og hvað þau eru að gera. Að sögn Margrétar er mikilvægt að slíta ekki sambandi barns við vini þrátt fyrir að eitthvað hafi komið upp, svo sem áfengi neytt í eitt skipti. Það sé ekki rétta leiðin til þess að halda börnum frá áhættuhegðun. 

Yfir helmingur nemenda í 9. og 10. bekk er oft eða nær alltaf með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum og um helgar hækkar hlutfallið í tæp 70%. 

Þegar kemur að ölvun má sjá að verulega dregur úr líkum á áfengisneyslu barna í 8.-10. bekk ef þau eyða frítíma með foreldrum og eða foreldrar vita hvar börn þeirra eru á laugardagskvöldum. Samvera barna og foreldra er að aukast og segir Margrét. Það er gott að hennarsögn og að þetta snúist ekki um flókna dagskrá í samveru heldur fyrst og fremst um að vera saman. 

Sama á við þegar kemur að rafrettunotkun. Hún er nánast engin meðal þess hóps sem ver mestum tíma með foreldrum um helgar og í öðrum frítíma.

Vímuefnaneysla nemenda í 8.-10 bekk sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi með íþróttafélagi er einnig áberandi minni en þeirra sem ekki æfa íþróttir. Því oftar sem þau æfa því ólíklegra er að þau noti vímuefni og skiptir þar engu um hvaða vímuefni er að ræða. 

Ákvæði um útivistartíma virkar og gott fyrir foreldra að geta vísað í þennan ramma sem settur er af lögreglu. Margrét segir að það sjáist mjög skýrt í gögnum að þeir nemendur sem eru sjaldan eða aldrei úti fram yfir miðnætti noti mun sjaldnar vímuefni. 

Áfengisneysla er mjög lítil meðal unglinga.
Áfengisneysla er mjög lítil meðal unglinga. AFP

Ölvun, reykingar, kannabisneysla og dagleg rafrettunotkun er meiri meðal nemenda sem fóru út og komu heim eftir miðnætti að sögn Margrétar.

Hún segir að það séu engir töfrar sem eru á bak við þann árangur sem Íslendingar hafa náð í að draga úr áhættuþáttum og auka verndandi þætti heldur er hér verið að gera það sem virkar, að horfa á áhættu- og verndandi þætti í umhverfi ungmenna. Það eru fjórum sinnum meiri líkur á að barn sem byrjar að drekka áfengi fyrir fimmtán ára aldri eigi við vímuefnavanda að  stríða síðar á ævinni að sögn Margrétar Lilju Guðmundsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka