Samningur um styrkveitingu ríkisins vegna rafvæðingar hafna á Akureyri var undirritaður í morgun. Styrkurinn nemur 43,8 milljónum króna og verður nýttur til að rafvæða Tangabryggju.
Þetta kemur fram á vefsíðu Akureyrarbæjar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Pétur Ólafsson hafnarstjóri rituðu undir samninginn að viðstaddri Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri.
Ásthildur bæjarstjóri sagði við tilefnið að Akureyrarbær vildi vera í fararbroddi í loftslagsmálum og að rafvæðing hafna væri eitt af stóru skrefunum í þá átt. Hún sagði mikilvægt að finna fyrir skilningi og áhuga Guðmundar Inga og ráðuneytis hans gagnvart verkefnum sveitarfélagsins.
Guðmundur Ingi hrósaði Akureyringum fyrir frumkvæði í umhverfismálum og lýsti ánægju með að geta lagt þessu mikilvæga verkefni lið.
Eftir undirritun var framkvæmdasvæðið á Tangabryggju skoðað en þar er unnið að því að lengja bryggjuna til Suðurs og um leið að koma fyrir raflögnum fyrir fraktskip og minni skemmtiferðarskip.