Skúli Skúlason stjórnarformaður Play segir kostnaðinn við reksturinn nema allt að 45 milljónum á mánuði. Stefnt er að því að hefja áætlunarflug á vegum Play í haust.
Skúli segir markaðinn fyrir flugvélar vera gjörbreyttan og einstaklega hagstæðan fyrir nýtt félag. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
„Ef Covid þróast í jákvæða átt þá erum við að horfa á að byrja áætlunarflug okkar í október. Það fer mikill tími í viðræður við flugvélaleigusala, hvaða kjör og hvers konar vélar eru í boði og hvernig þær passa inn í samsetningu á framtíðarflotanum. Enn er alveg óljóst og fer eftir því hvernig staðan verður, hvort við byrjum með eina eða fleiri vélar, enda erfitt að taka ákvarðanir með alla þessa óvissuþætti fyrir framan sig,“ segir Skúli.
Skúli segir hægt að segja Play vera á góðum stað miðað við keppinautana sem sitja uppi með flugvélar sem ekki er hægt að nota sem og fjölda starfsfólks á launum.
„Við erum í dag með 36 starfsmenn, en hluti af starfsfólkinu hefur ekki verið í fullri vinnu meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð og því starfsemin ekki verið 100%, eða í yfirgír eins og þegar starfsemin verður komin á fullan skrið. Við erum að brenna á bilinu 200 til 300 þúsund evrum á mánuði í reksturinn núna, sem við getum staðið vel undir þangað til við sjáum tekjustreymi byrja vonandi strax í haust. Við erum með aðgang að nægri fjármögnun til að fara í loftið,“ segir Skúli sem segir Play vera með allan undirbúning tilbúinn fyrir lokafrágang á leigu á flugvélum.
Sjá nánar á vef Viðskiptablaðsins