„Tækifærið er mjög stórt“

Pálmi Freyr á kynningarfundi Kadeco.
Pálmi Freyr á kynningarfundi Kadeco. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ýmislegt sem sækir í að vera nálægt flugvelli, eins og útflutningsvörur sem þurfa að komast hratt til útlanda, flugvallarhótel og bílaleigur og þessir hlutir sem við þekkjum. Svo erum við að vonast eftir einhverju nýju líka, einhverjum hugmyndum sem eru kannski séríslenskar,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, í samtali við mbl.is.

Aðalfundur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, var haldinn á mánudag og við sama tækifæri var haldinn kynningarfundur um breytt hlutverk félagsins og nýjar áherslur varðandi skipulag flugvallarborgar á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar.

„Kadeco er vettvangur fyrir sveitarfélögin sem eru á svæðinu og flugvöllinn til þess að fá heildarmynd á skipulag svæðisins. Hingað til hafa þessir aðilar verið hver á sínum stað að skipuleggja innan sinna marka, þeir fara allir með skipulagsvald, en nú var tekin ákvörðun um það að beina þessu í einn farveg og láta Kadeco leiða þá vinnu svo hægt verði að nálgast skipulagsmálin á heildstæðari hátt og með langtímasýn í huga sem fer svæðinu best,“ segir Pálmi.

Grænlitaði flöturinn á myndinni markar hluta þess svæðis sem verður …
Grænlitaði flöturinn á myndinni markar hluta þess svæðis sem verður þróað og skipulagt. Það liggur meðfram flugverndargirðingu Keflavíkurflugvallar og Reykjanesbraut. Ljósmynd/Aðsend

„Nú erum við að skipuleggja samkeppni þar sem við ætlum að fá til okkar helstu sérfræðinga í hönnun flugvallarsvæða. Í greiningarvinnunni í dag er verið að athuga hvað er vænlegt í íslensku samhengi, við Keflavíkurflugvöll, hvers konar starfsemi, hvort það eigi að vera íbúabyggð og þá hversu mikil, hvernig eigi að forgangsraða uppbyggingu og svo framvegis.“

Pálmi segir gaman að skoða þá möguleika sem eru fyrir hendi á svæðinu við Keflavíkurflugvöll. „Fyrir utan grænu orkuna þá er það líka staðsetning flugvallarins mitt á milli Evrópu og Ameríku. Tækifærin sem Icelandair hafa verið að nýta sér Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll, það sem það hefur verið að skapa, það er alltaf fyrir hendi og verður áfram. Tækifærið er mjög stórt.“

Fljótt að fara upp í 100 milljarða

Til stendur að uppbygging fari fyrst um sinn fram á 3,5 ferkílómetra svæði sem teygir sig frá Ásbrú og upp að að flugstöðinni meðfram Reykjanesbrautinni. „Það er helsta uppbyggingarsvæðið þar sem við sjáum fyrir okkur og liggur beinast við, en síðan er Kadeco með yfirráð yfir miklu meira landi. Það teygir sig alveg niður að Helguvíkurhöfn til dæmis svo við getum útvíkkað svæðið ef við viljum.“

Pálmi segir að verið sé að hefja greiningarvinnu varðandi fjárfestingu, en að sem dæmi séu gagnaverin sunnan við svæðið búin að fjárfesta fyrir um 50 milljarða króna. „Það hefur verið nefnt að þegar þetta fer að byggjast upp að það verði fljótt að fara upp í 100 milljarða en við erum ekki byrjuð að skoða það ofan í kjölinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka