„Nú eru liðin tvö ár frá því að Viðreisn komst í meirihluta með vinstri flokkunum í borginni. Þá var gerður sáttmáli um að greiða niður skuldir á meðan efnahagsástandið væri gott en á það lögðu fulltrúar Viðreisnar þunga áherslu. Það hefur gjörsamlega brugðist og skuldir borgarinnar aukist um tugi milljarða í góðæri.“
Þetta segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík vegna rekstrarafkomu A-hluta Reykjavíkurborgar sem er neikvæð um 1,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi ársins. Áætlað hafði verið að afkoman yrði jákvæð um 964 milljónir á tímabilinu. Niðurstaðan var því tæplega 2,3 milljörðum króna lakari en áætlað var.
Í tilkynningunni er rifjað upp það sem stendur á 11. blaðsíðu samstarfssáttmála Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna. Þar segir: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“
„Þetta þriggja mánaða uppgjör sýnir það svart á hvítu að ekki hefur verið lögð áhersla á að greiða niður skuldir. Enn fremur sýnir uppgjörið það glöggt hversu illa borgin er undir áföll búin líkt og kórónukreppuna,“ segir Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Árshlutauppgjörið var til afgreiðslu í borgarráði í morgun en Sjálfstæðisflokkur lagði fram bókun á fundinum. Þar segir:
„Afkoma borgarinnar er umtalsvert lakari en gert var ráð fyrir í áætlun. Munar hér heilum 2.228 milljónum. Taprekstur er staðreynd og skuldir vaxa hratt. Athygli vekur að þetta er þriggja mánaða uppgjör á þeim tíma sem áhrif COVID-19 voru ekki komin fram.
Veltufé frá rekstri er hrunið í 2,9% sem er langt undir viðmiðunarmörkum borgarinnar sjálfrar sem er 9%. Reykjavíkurborg er ekki vel búin til að takast á við áföll enda var skuldasöfnun gífurleg í góðærinu.
Skuldir hækka um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Skuldahlutfall hækkar núna hratt. Meirihlutinn hefur núna starfað í tvö ár og hefur þverbrotið eigin sáttmála með því að borga ekki niður skuldir í góðærinu eins meirihlutasáttmálin kvað skýrt á um. Viðreisn lofaði viðreisn í fjármálum Reykjavíkurborgar og lækkun skulda. - Það klikkaði.“