Þorvaldur eigi tæplega samleið með ráðuneyti Bjarna

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun um ráðningu ritstjóra ritsins Nordic Economic Policy Review, sem gefið er út undir hatti norrænu ráðherranefndarinnar, krefst samsinnis allra Norðurlandanna fyrir ráðningu. Ekkert slíkt samþykki lá fyrir af hálfu Íslands þann 1. nóvember, þegar Þorvaldur Gylfason segir að sér hafi verið boðið starfið.

Frá þessu greinir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á Facebook-síðu sinni.

Bjarni bendir á að um ráðningu í starfið sé fjallað í starfshópi sérfræðinga í fjármálaráðuneytum Norðurlandanna.

„Starfið er ekki auglýst, heldur fer fram umræða í hópnum um þá einstaklinga sem hvert ráðuneyti leggur til. Engar sérstakar hæfniskröfur eru gerðar aðrar en þær að viðkomandi njóti trausts allra sem að valinu koma,“ skrifar ráðherrann.

„Ekkert slíkt samþykki lá fyrir þann 1. nóvember sl., þegar Þorvaldi á að hafa verið boðin vinnan, sem var áður en nafn hans hafði nokkurn tímann verið nefnt við fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri.“

Sjálfsagt að mæta fyrir þingnefnd

Bendir Bjarni á að fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafi fyrir hans hönd lagt til konu sem hafi mikla reynslu af störfum, rannsóknum og skrifum á þessu fræðasviði. Til vara hafi verið tvö önnur.

„Hvorugt þeirra var Þorvaldur Gylfason.“

Greint var frá því á mbl.is í gær að Guðmund­ur Andri Thors­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, vilji kalla Bjarna fyr­ir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþingis, til þess að inna hann eft­ir svör­um um fram­göngu fjár­málaráðuneyt­is­ins.

„Það er meira en sjálfsagt að mæta fyrir þingnefnd og rekja þessi sjónarmið nánar. Þá gefst mögulega tækifæri til að fara nánar ofan í saumana á því hvers vegna ég tel Þorvald Gylfason tæplega eiga samleið með mínu ráðuneyti í þessu verkefni eða yfirhöfuð um önnur stefnumarkandi mál,“ skrifar Bjarni.

„Það verður þá í fyrsta sinn sem ég ræði um mögulegt samstarf við Þorvald Gylfason en ekki þarf að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hvaða hug Þorvaldur hefur borið til þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í undanfarin ár. Ef þörf krefur skal farið betur yfir það fyrir þingnefnd.“

„Aldrei dottið í hug sá möguleiki“

Bjarni fullyrðir að starfsmaður ráðuneytisins, sem vakti athygli ráðherranefndarinnar á þátttöku Þorvaldar í pólitísku starfi, hafi verið nafngreindur og „settur í forgrunn á mjög ósmekklegan hátt“, vegna ákvörðunar sem ekki hafi á nokkurn hátt verið hans.

„Af þessu tilefni minni ég á að starfsmenn ráðuneyta starfa í umboði og á ábyrgð ráðherra. Þótt ekki séu öll samskipti borin undir mig ber ég á þeim ábyrgð og í þessu tilviki endurspeglast vilji minn um að tilnefna hvorki né samþykkja Þorvald Gylfason til þessara starfa. Reyndar hafði mér aldrei dottið í hug sá möguleiki og enginn nefnt hann við mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert